Alls bárust 163 tilnefningar um 112 einstaklinga úr tuttugu íþróttafélögum, en að lokum voru það þrír einstaklingar sem voru tilnefndir. Það voru þau Edvard Skúlason úr knattspyrnufélaginu Val, Guðrún Kristín Einarsdóttir frá Ungmennafélaginu Aftureldingu og Ólafur Elí Magnússon sem hefur starfað fyrir Íþróttafélagið Dímon.
Íþróttaeldhugi ársins er valinn úr röðum sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni sem hafa í gegnum árin nýtt eigin hæfileika, frítíma og sérþekkingu til að efla íþróttastarfið í sínu nærumhverfi eða á landinu öllu.
Öll hafa þau unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþrótta til áratuga, en það var að lokum Guðrún Kristín Einarsdóttir sem var útnefnd Íþróttaeldhugi ársins 2023.
Þetta var í annað sinn sem verðlaunin eru veitt, en í fyrra var Haraldur Ingólfsson valinn Íþróttaeldhugi ársins, fyrstur allra.