Handbolti

Verk­fall truflar EM í hand­bolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lest frá Deutsche Bahn en það er búist við miklum truflunum á næstu dögum í lestaferðum í Þýskalandi.
Lest frá Deutsche Bahn en það er búist við miklum truflunum á næstu dögum í lestaferðum í Þýskalandi. Getty/Sven Hoppe

Evrópumótið í handbolta hefst á miðvikudaginn kemur en verkfallsaðferðir í Þýskalandi gætu sett sinn svip á fyrstu viku mótsins.

Lestraverkfall mun standa yfir í tvo daga og það eru einmitt tveir fyrstu keppnisdagar mótsins.

Lestarstarfsmenn höfðu gefið það út að þeir ætluðu í verkfall eftir hátíðirnar og nú er það orðið ljóst að verkfallið mun standa yfir frá morgni 10. janúar þar til klukkan sex eftir hádegi tveimur dögum síðar.

Verkfallið mun hafa áhrif á stóran hluta lestaferða í Þýskalandi og gera áhorfendum því mun erfiðara um vik að ferðast á leikina.

Íslenska liðið spilar sinn fyrsta leik á mótinu á móti Serbíu á föstudaginn í München en búist er við miklum fjölda Íslendinga á leikjum liðsins.

Reuters segir frá því að lestarstarfsmenn vilji fækka vinnutímum úr 38 tímum niður í 35 tíma á viku fyrir vaktarstarfsmenn en einnig að hækka laun sín um 555 evrur á mánuði auk þess að fá þrjú þúsund evru eingreiðslu til að vinna á móti verðbólgu. 555 evrur eru tæplega 84 þúsund í íslenskum krónum og þrjú þúsund evrur eru 453 þúsund íslenskar krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×