Skoðun

Hver er á­fengis­stefnan?

Guðlaug Birna Guðjónsdóttir skrifar

„Almenn lýðheilsumarkmið, velferðarsjónarmið, vernd barna og ungmenna, svo ekki sé minnst á lýðheilsumat eru augljósar og algerar forsendur áfengisstefnu. Við getum ekki byggt áfengisstefnu á ítrustu forsendum sérhagmuna áfengisiðnaðarins.“ Þessi orð Árna Guðmundssonar í viðtali á Vísi sl. laugardag þar sem hann lýsir því af hverju hann greip til þeirra ráða að kæra sjálfan sig til lögreglunnar með því að kaupa áfengi ólöglega, eru mikilvæg skilaboð til ráðamanna landsins.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að áfengi er engin venjuleg neysluvara. Áfengi er vara sem veldur margvíslegu tjóni meðal einstaklinga, fjölskyldna og í öllu samfélaginu. Og sem áhugamanneskja um krabbameinsforvarnir vil ég benda á að áfengi er einnig stór áhættuþáttur fyrir krabbamein.

Í fjölda rannsókna hefur verið sýnt fram á tengsl milli áfengisneyslu og nokkurra tegunda krabbameina. Því hefur áfengisneysla verið flokkuð sem þekktur krabbameinsvaldur hjá Alþjóðakrabbameins­rannsóknarstofnuninni (IARC). Áfengisdrykkja getur valdið að minnsta kosti sjö mismunandi krabbameinum: Í munni, vélinda, koki, barka, lifur, ristli, endaþarmi og brjóstum. Vísbendingar eru einnig um að áfengi auki líkur á fleiri tegundum krabbameina.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur um áratugaskeið lagt til við aðildarþjóðir sínar að unnið verði markvisst að því að draga úr heildarneyslu áfengis, ekki síst með því að takmarka framboð á áfengi. En á Íslandi virðist ekki þurfa að fara eftir tilmælum svo mikilvægrar stofnunar. Nei, við látum fáa sérhagsmunaaðila komast upp með alls konar lögleysu. Ráðherrar, alþingismenn, lögreglan og fleiri aðilar skella skollaeyrum við. Þetta er ótrúleg áfengisstefna.

Eins og ég byrjaði vil ég enda á orðum Árna Guðmundssonar: „Þetta er einfaldlega smásala í sinni tærustu mynd. Verið að markaðsvæða áfengissölu sem er þvert á gildandi stefnu og lög. Um sölufyrirkomulag áfengis og áfengislöggjöfina hefur ríkt nokkuð almennt sátt í samfélaginu enda fara þau bil beggja, taka tillit til lýðheilsu-, velferðar- (og þá ekki síst barna og ungmenna) og svo viðskiptasjónarmiða.“

Höfundur er framkvæmdastjóri og höfundur. 




Skoðun

Sjá meira


×