Enski boltinn

Elísa­bet ein af þremur sem koma til greina hjá Chelsea

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elísabet gæti verið á leið í ensku úrvalsdeildina.
Elísabet gæti verið á leið í ensku úrvalsdeildina. Vísir/Getty

Elísabet Gunnarsdóttir gæti orðið næsti knattspyrnustjóri enska stórliðsins Chelsea en sænska ríkissjónvarpið SVT greinir frá þessu.

Elísabet hætti hjá Kristianstad að loknu síðasta tímabili eftir að hafa verið við stjórnvölinn þar síðustu fimmtán árin. Síðan þá hefur hún verið án starfs en á dögunum var hún meðal annars orðuð við landsliðsþjálfarastöðu Noregs.

Í dag greinir SVT hins vegar frá því að Elísabet gæti tekið við starfi knattspyrnustjóra Chelsea. Í frétt miðilsins kemur fram að Elísabet sé ein af þremur sem komi til greina í starfið og að hún hafi nú þegar hitt forráðamenn liðsins í London.

Emma Hayes hættir með Chelsea eftir  tímabilið og tekur við bandaríska landsliðinu. Casey Stone sem stýrir San Diego Wave og Laura Harvey knattspyrnustjóri Seattle Reign eru einnig á lista Chelsea yfir mögulega eftirmenn Hayes.

SVT segir að Elísabet hafi ekki viljað tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. 

Chelsea er stórveldi í ensku kvennadeildinni. Liðið hefur unnið enska meistaratitilinn síðustu fjögur ár og bikarinn síðustu þrjú. Liðið hefur á að skipa gríðarlega sterkum leikmannahópi og væri afar áhugavert að sjá Elísabetu spreyta sig á einu stærsta sviði kvennaboltans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×