Enski boltinn

„Líður eins og mig sé að dreyma“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Conor Bradley fagnaði marki sínu í kvöld af mikilli innlifun.
Conor Bradley fagnaði marki sínu í kvöld af mikilli innlifun. Vísir/Getty

Hinn tvítugi Conor Bradley átti frábæran leik fyrir Liverpool gegn Chelsea í kvöld. Hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið og lagði upp tvö mörk fyrir félaga sína þar að auki.

„Ég er ótrúlega stoltur og þetta er eitthvað sem mig hefur dreymt um lengi. Mér líður eins og mig sé að dreyma. Ég er mjög ánægður,“ sagði Bradley í viðtali eftir leikinn gegn Chelsea í kvöld en Liverpool fór með 4-1 sigur af hólmi.

Markið sem hann skoraði kom eftir sendingu frá Luis Diaz en Bradley var skyndilega einn á auðum sjó og skoraði með góðu skoti í fjærhornið.

„Ég trúði þessu ekki og svo endaði hann neðst í horninu. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Þetta var frábært,“ en Bradley fékk tækifærið í stöðu hægri bakvarðar eftir að stórstjarnan Trent Alexander-Arnold meiddist.

„Auðvitað var leiðinlegt að Trent hafi meiðst. Þetta gerist í fótbolta og ég þurfti að nýta tækifærið. Í síðustu leikjum finnst mér ég hafa gert vel og ég þarf bara að halda áfram á þessari braut.“

„Vonandi meiðast ekki fleiri“

Dominik Szoboszlai var með Bradley í viðtalinu. Ungverjinn skoraði eftir sendingu frá Bradley og var ánægður með liðsfélaga sinn eftir leik.

„Mark og tvær stoðsendingar. Hann gæti ekki beðið um betri dag. Við erum ánægðir að hafa hann og við höldum áfram,“ sagði Szoboszlai og þakkaði Bradley síðan fyrir stoðsendinguna.

„Ég þurfti ekki að gera það mikið því hann lenti eiginlega bara á höfðinu á mér. Þetta er fyrsta skallamarkið mitt og vonandi verða þau fleiri.“

Szoboszlai var þó ekki alveg tilbúinn að færa Bradley bakvarðastöðuna endanlega enda Alexander-Arnold einn af mikilvægustu mönnum Liverpool.

„Við þurfum alla. Það er mikið af leikjum og Trent var óheppinn að meiðast. Við þurfum hann og vonandi meiðast ekki fleiri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×