Í tilkynningu frá Síldarvinnslunni kemur fram að Páll sé Norðfirðingur, fæddur árið 1960.
„Páll er tölvuverkfræðingur að mennt og lauk hann námi sínu í háskólanum í Álaborg í Danmörku. Að námi loknu starfaði hann fyrst við hugbúnaðargerð hjá fyrirtækinu EJS og varð síðar framkvæmdastjóri hjá því fyrirtæki. Síðar starfaði hann hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Hugur/Ax. Árið 2007 flutti fjölskyldan austur til Neskaupstaðar og hóf Páll þá störf hjá ALCOA – Fjarðaáli. Í upphafi var hann framkvæmdastjóri upplýsingatækni hjá Fjarðaáli og síðan var hann framkvæmdastjóri viðhaldsmála um tíma. Loks hóf hann að gegna starfi framkvæmdastjóra öryggis- og heilsumála hjá Fjarðaáli. Páll segist vera afar ánægður með starfstíma sinn hjá ALCOA – Fjarðaáli. Hann hafi unnið með afar góðu fólki og öðlast dýrmæta reynslu í störfunum þar. Þá reynslu geti hann svo sannarlega hagnýtt sér.
Páll lauk störfum hjá ALCOA – Fjarðaáli í mars á síðasta ári og frá þeim tíma hefur hann sinnt ýmsum áhugamálum þar til nú þegar nýtt starf á hug hans allan. Áhugamálin eru fjölþætt og má þar nefna íþróttir, útivist og uppgerð gamalla húsa. Viðfjörður á sérstakan sess í huga Páls, en hann á ættir að rekja þangað,“ segir í tilkynningunni.
Páll er kvæntur Jóhönnu Bryndísi Jónsdóttur sem starfar á skrifstofu Síldarvinnslunnar. Þau eiga þrjár uppkomnar dætur og fimm barnabörn.