„Ég er hér á Túngötunni og er að pakka niður allri búslóðinni minni til þess að fara með hana í geymslu,“ segir Andrea og að hún hafi ákveðið það strax í desember að flytja úr bænum. Hún hefur búið í bænum í tæp níu ár og hefur alltaf liðið vel.
„Já, alveg rosalega vel. Grindavík er dásamlegt samfélag. Heldur rosalega vel utan um mann og þegar ég flutti hingað, þá var mér tekið mjög vel. Ég er búin að eiga hérna æðisleg níu ár og þetta er alveg ótrúlega erfitt. Ég vildi óska þess að ég gæti átt heima áfram í þessu samfélagi og íbúðinni minni en ég get ekki hugsað mér að eiga áfram heima á þessu svæði,“ segir Andrea.
„Ég ákvað það í desember að ég myndi ekki treysta mér til þess að búa við þessar aðstæður lengur. Þannig ég er bara alfarin úr Grindavík.“

Var eitthvað sérstakt sem gerði útslagið?
„Þetta er bara búið að vera, eldgosið alltaf að færast nær og nær og svo slysið með Lúðvík heitinn. Ég held að ég myndi aldrei treysta mér til þess að vera úti á ferðinni eða hleypa strákunum mínum gangandi milli húsa liggur við. Þannig þetta er bara komið nóg,“ segir Andrea.
Tólf tæma húsið
Hún er með tólf manns með sér í dag til að tæma húsið alveg. Hún segist hafa fengið þrjá klukkutíma síðasta þriðjudag til að tæma og hafi þá náð að tæma eldhúsið.
„Síðan áttum við að fara á fimmtudaginn en þá riðlaðist allt út af leiðindaveðri. Þannig þegar ég fékk að vita að ég gæti farið inn í dag, þá hóaði ég í alla vini mína og barnsfaðir minn, hann fékk sendibíl. Það eru örugglega tólf manns hérna að hjálpa mér,“ segir hún en þau voru mætt inn í Grindavík um klukkan hálf níu í morgun.
Samkvæmt skipulagi almannavarna fær fólk sex klukkutíma í verðmætabjörgun í dag og er farið inn í tveimur hollum. Andrea verður því að vera búin klukkan 14 í dag.
„Við vorum komin inn í bæ fyrir klukkan hálf níu. Erum að verða búin að pakka öllu lauslegu og erum byrjuð að flytja búslóðina inn í sendibíl. Þannig að þetta skotgengur og ég reikna með að við verðum búin að öllu fyrir klukkan tvö.“
Hvernig er tilfinningin? Hvernig líður þér með þetta allt saman?
„Þetta er náttúrulega fáránlegt. Venjulega þegar maður flytur, þá hefur maður einhverja daga eða vikur jafnvel til þess að fara í gegnum dótið sitt, ætla ég að eiga þetta, ætla ég að gefa þetta áfram eða má henda þessu. Nú er þetta í rauninni þannig að það fer allt í kassa, það fer ekkert út án þess að vera í pappakassa því þetta er á leið í geymslu. Við erum ekki að fara í gegnum neitt heldur hella úr skúffum ofan í kassa. Það er ekkert skipulag því þetta eru bara sex klukkutímar sem við fáum. Og þó við séum tólf manns þá eru þetta tólf manns sem þekkja ekkert endilega mínar eigur. Þó þetta séu vinir mínir og fjölskylda. Það er fáránlegt að maður fái bara sex klukkutíma til þess að taka allt sem ég á og koma því í burtu.“

Hvernig er orkan í bænum, ertu búin að ræða við fleiri íbúa sem eru að ná í eigur?
„Nei, ekki í dag. Það eru fleiri á Túngötunni en kannski vegna þess að þorrablót Grindvíkinga var í gær, þá eru færri í bænum heldur en ég hefði haldið,“ segir hún að lokum.
