Fótbolti

Jórdanía í úr­slit í fyrsta sinn eftir ó­væntan sigur gegn Suður-Kóreu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mousa Al-Tamari skoraði og lagði upp fyrir Jórdaníu er þjóðin tryggði sér sæti í úrslitum Asíumótsins í knattspyrnu í fyrsta sinn í dag.
Mousa Al-Tamari skoraði og lagði upp fyrir Jórdaníu er þjóðin tryggði sér sæti í úrslitum Asíumótsins í knattspyrnu í fyrsta sinn í dag. MB Media/Getty Images

Jórdanía tryggði sér í dag sæti í úrslitum Asíumótsins í knattspyrnu í fyrsta sinn í sögunni er liðið vann óvæntan 2-0 sigur gegn Suður-Kóreu.

Suður-Kórea var af flestum talið eitt af sigurstranglegustu liðum mótsins, en frammistaða liðsins í útsláttarkeppni mótsins hefur hins vegar ekki staðið undir væntingum.

Þrátt fyrir það var kóreska liðið búið að koma sér í undanúrslit, en nú lenti liðið á vegg. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Yazan Al Naimat Jórdaníu yfir með marki á 53. mínútu eftir stoðsendingu frá Mousa Al-Tamari.

Al-Tamari var svo sjálfur á ferðinni rúmum tíu mínútum síðar þegar hann tvöfaldaði forystu Jórdaníu og tryggði liðinu um leið 2-0 sigur.

Jórdanía er því á leið í úrslit Asíumótsins í knattspyrnu á kostnað Suður-Kóreu, en það kemur í ljós á morgun hvort Jórdanía mæti Íran eða Katar í úrslitunum sem fram fara á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×