„Myndavélarnar geta blekkt,“ segir hún en flestir séu að miða við það sem sjáist á hinum ýmsu myndavélum sem beinast nú að gosinu og sýna í beinni útsendingu. „En þetta er eitthvað sem við erum að undirbúa að geti gerst.“
Samkvæmt fulltrúum Vegagerðarinnar sé mögulegt að hraunið gæti náð Grindavíkurvegi innan einhverra klukkutíma en það sé þó ómögulegt að spá nákvæmlega fyrir um hvenær.
„Eins og við sjáum á vefmyndavélum þá flæðir í átt að veginum,“ segir hún.
Þá sé einnig möguleiki að hraun nái að varnargörðunum við Svartsengi, eins og Björn Oddsson jarðeðlisfræðingur sagði í samtali við Vísi í morgun. Hjördís segir þannig gott að vita til þess að garðarnir séu komnir upp, það veiti ákveðið öryggi.
Aðspurð segir Hjördís von á upplýsingum um kvikumagn á næstunni en nú sé verið að vinna úr þeim gögnum sem safnað var í yfirlitsflugi Landhelgisgæslunnar í morgun.