Veður

Lægðabraut yfir landinu færir með sér skúr og rigningu

Eiður Þór Árnason skrifar
Skarfar á skeri við Sundahöfn.
Skarfar á skeri við Sundahöfn. Vísir/Vilhelm

Spáð er suðlægri vindátt í dag, 3 til 10 metrum á sekúndu með skúrum, en að mestu bjart norðaustantil. Suðaustan 8 til 13 metrar á sekúndu og rigning sunnan- og vestanlands í kvöld.

Suðaustan 3 til 8 metrar á sekúndu og skúrir í fyrramálið, en bjartviðri norðanlands. Gengur í suðaustan 10 til 18 metra á sekúndu með rigningu sunnan- og vestantil síðdegis á morgun, hvassast syðst.

Hiti 1 til 8 stig, í kringum frostmark norðaustantil í nótt og á morgun.

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofunni að lægðabraut liggi beint yfir landið þessa helgina og fram í næstu viku. Fyrstu skilin með rigningu komu í gærkvöldi og næstu skil koma að suðurströndinni í kvöld. Síðdegis á morgun er svo von á þriðju skilunum á þremur dögum þegar rigning verður sunnan- og vestantil.

Það er því áframhald á hlákunni og mun snjórinn og ísinn á láglendi að mestu taka upp, að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Suðvestan 5-13 m/s og skúrir eða él, en bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Hiti í kringum frostmark.

Á miðvikudag: Ákveðin suðlæg átt og rigning eða slydda, en úrkomulítið norðanlands. Hiti um og yfir frostmarki. Dregur úr vindi og úrkomu og kólnar er líður á daginn.

Á fimmtudag: Snýst í norðanátt með ofankomu fyrir norðan, en styttir upp syðra. Sums staðar frostlaust við ströndina, annars vægt frost.

Á föstudag og laugardag: Útlit fyrir norðlæga átt með éljum, en lengst af bjartviðri sunnan heiða. Frost um allt land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×