Líki hans hefur enn ekki verið skilað til fjölskyldu hans en yfirvöld segja að það verði ekki gert fyrr en í fyrsta lagi eftir tvær vikur. Tímann eigi að nota í rannsóknir.
Lyudmila, móðir Navalnís, birti í morgun ákall til Pútíns þar sem hún bað forsetann um að láta afhenda henni lík sonar hennar.
„Leyfðu mér loks að sjá son minn. Afhentu lík hans svo ég geti jarðað hann með reisn.“
Standing outside the prison where he died last Friday, Alexei Navalny's mother Lyudmila asks Putin:
— max seddon (@maxseddon) February 20, 2024
"For five days I can't see him, they won't give me his body or even tell me where he is. Let me see my son at last. Release Alexei's body at once so I can bury him with dignity." pic.twitter.com/qeHhd8x3g7
Navalní var 47 ára gamall og er hann sagður hafa misst meðvitund og dáið eftir göngutúr í afskekktri fanganýlendu í norðanverðri Síberíu.
Dánarvottorðið sem móðir Navalnís fékk segir hann hafa dáið klukkan 14:17 þann 16. febrúar. Fangi sem blaðamenn Novaya Gazeta náðu tali af segir þó að fangar hafi vitað af dauða Navalnís fjórum tímum áður.
Þá hafi verið mikil læti í fangelsinu kvöldið áður og föngum gert að halda kyrru fyrir í híbýlum sínum. Morguninn eftir hafi fangaverðir farið yfir fangelsið og fjarlægt alla síma og aðra bannmuni, sem er reglulega gert í aðdraganda eftirlitsskoðunar í fanganýlendunni.
Sjá einnig: Sagði marbletti benda til að Navalní hefði verið haldið niðri
Fanginn segir alla hafa vitað af dauðanum um klukkan tíu um morguninn. Hann segir líklegt að Navlní hafi dáið kvöldið áður.
Sneri aftur eftir eitrun
Navalní hafði setið í fangelsi frá árinu 2021 þegar hann hlaut tveggja og hálfs árs dóm fyrir að rjúfa skilorð vegna dóms frá 2014, sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur sagt gerræðislegan.
Ástæða þess að hann braut skilorðið var þó sú að eitrað hafði verið fyrir honum og hann lá við dauðans dyr á sjúkrahúsi í Þýskalandi. Navalní sakar Vladimír Pútin, forseta Rússlands um að bera ábyrgð á eitruninni en notast var við taugaeitrið Novichok, sem einnig var notað til að eitra fyrir fyrrverandi njósnaranum Sergei Skripal og dóttur hans.
Þrátt fyrir að eitrað hafi verið fyrir honum sneri Navalní aftur til Rússlands og var hann handtekinn strax eftir lendingu. Á undanförnum árum hefur fangelsisvist hans svo ítrekað verið lengd, nú síðast um nítján ár.
Bróðir Navalnís eftirlýstur
Oleg Navalní, bróðir Alexeis, er eftirlýstur í Rússlandi á nýjan leik. Ríkismiðlar Rússlands tilkynntu í morgun að hann væri til rannsóknar en fyrir hvað er ekki ljóst.
Oleg var árið 2014 dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir svik. Því hefur lengi verið haldið fram að hann hafi verið dæmdur til að auka þrýsting á Alexei.
Hann var einnig dæmdur í tveggja ára skilorð árið 2021 fyrir að hvetja til mótmæla á samfélagsmiðlum og brjóta þar með sóttvarnarreglur.