Fyrri leik liðanna í Hollandi lauk með 2-2 jafntefli og því allt undir þegar liðin mættust í kvöld. Kristian Nökkvi Hlynsson var í byrjunarliði Ajax og hefur átt betri leiki en það var maðurinn sem kom inn í hans stað sem skaut Ajax áfram.
Steven Berghuis kom gestunum frá Amsterdam yfir eftir sendingu frá Brian Brobbey þegar rúmur hálftími var liðinn af leiknum. Gestirnir urðu fyrir áfalli þegar Brobbey fór meiddur af velli þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik.
Grátt varð svart í upphafi síðari hálfleik þegar Josip Šutalo fór í glannalega tæklingu og uppskar rautt spjald. Gestirnir manni færri og það ætlaði heimaliðið heldur betur að nýta sér. Það gekk þó ekki betur en svo að Albert Grønbæk nældi sér í gult á 58. mínútu og annað átta mínútum síðar. Gronbæk var því einnig sendur í sturtu og aftur orðið jafnt í liðum.
77. Keep fighting, boys!#UECL #bodaja pic.twitter.com/YBvxIkpSUc
— AFC Ajax (@AFCAjax) February 22, 2024
Það var svo á 83. mínútu sem Kenneth Taylor leysti Kristian Nökkva af hólmi. Á sömu mínútu jafnaði Patrick Berg metin og staðan 1-1 þegar flautað var til leiksloka. Þar sem engin útivallarmarkaregla er við lýði þá þurfti að framlengja.
Þar reyndist áðurnefndur Taylor hetjan en hann skoraði sigurmarkið með þrumuskoti á 114. mínútu. Staðan orðin 1-2 og reyndust það lokatölur kvöldsins. Ajax vinnur einvígið þar með 4-3 og er komið áfram í Sambandsdeild Evrópu.
Kenneth Taylor pic.twitter.com/vTVGPmJtR2
— AFC Ajax (@AFCAjax) February 22, 2024