Fólkið á Opta reiknuðu líkurnar á því hvaða deildir í Evrópu eigi mesta möguleikann á því að hreppa aukasætið í Meistaradeildina á næstu leiktíð.
Enska úrvalsdeildin gæti fengið þetta sæti sem myndi þýða að ekki aðeins fjögur efstu liðin kæmust í Meistaradeildina.
Liverpool, Manchester City og Arsenal eru í þremur efstu sætum ensku úrvalsdeildarinnar og Aston Villa er í fjórða sætinu.
Baráttan um fimmta sætið er ekki spennandi eins og er því Tottenham er með sex stiga forskot á Manchester United eftir leiki helgarinnar. United er aftur á móti ellefu stigum frá fjórða sætinu og þarf því bæði að vinna upp forskot Tottenham sem og að treysta á gott gengi ensku liðanna í Evrópu í vor.
Meistaradeildin í fótbolta tekur miklum breytingum fyrir næsta tímabil og meðal þeirra breytinga er að fjögur aukasæti bætast við. Meistaradeildin fer úr 32 liðum í 36 lið fyrir 2024-25 tímabilið og jafnframt úr riðlakeppni í deildarkeppni.
Tvö af þeim nýju sætum sem bjóðast koma í hlut þeirra deilda í Evrópu sem ná bestum árangri í Evrópukeppnunum á þessu tímabili.
Opta notaði ofurtölvuna frægu til að reikna út mestar líkur á því hvar þessu tvö sæti enda.
Ítalir eru þar efstir en það eru núna 91 prósent líkur á að þeir fái annað sætið en 81,9 prósent líkur á að hitt sætið fari til Englands. Það eru aftur á móti aðeins 22 prósent líkur á að sætið fari til Þýskalands og aðeins þrjú prósent líkur á að það endi hjá Frökkum.
Útreikningarnir voru gerðir eftir leiki í Evrópukeppnunum í síðustu viku þar sem fyrri leikirnir kláruðust í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar og endanlega orðið ljóst hvernig sextán liða úrslit Evrópu- og Sambandsdeildanna líta út.