Fótbolti

FIFA bjó til nýja tuttugu þjóða keppni sem byrjar í lok mars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA, sést hér með Elvis Chetty, forseta knattspyrnusambands Seychelleseyja og H.E. Sheik Rashid bin Humaid Al Nuaimi.
Gianni Infantino, forseti FIFA, sést hér með Elvis Chetty, forseta knattspyrnusambands Seychelleseyja og H.E. Sheik Rashid bin Humaid Al Nuaimi. Getty/Tullio Puglia

Alþjóða knattspyrnusambandið hefur stækkað heimsmeistaramótið upp í 48 lið og heimsmeistarakeppni félagsliða upp í 32 lið en það var ekki nóg. Nú hafa þeir búið til nýja keppni og ætla byrja á henni strax í þessum mánuði.

Nýja landsliðskeppnin hefur fengið nafnið FIFA Series og tuttugu þjóðir munu hefja keppni í henni í lok þessa mánaðar.

Þjóðunum tuttugu verður skipt niður í fimm riðla með fjórum þjóðum hver. Allir leikirnir í hverjum riðli munu fara fram á sama stað. Sádi-Arabía er með tvo riðla og hinir þrír verða spilaðir í Alsír, Aserbaídsjan og Srí Lanka.

Andorra, Búlgaría og Aserbaídsjan eru einu Evrópuþjóðirnar sem taka þátt.

Andorra mun spila sína þrjá leiki í Alsír á móti heimamönnum, Bólivíu og Suður Afriku.

Aserbaídsjan mun hýsa riðil og mæta þar Búlgaríu, Mongólíu og Tansaníu.

Kyrrhafseyjan Vanúatú er meðal þátttökuþjóða í keppninni en landslið þjóðarinnar er í 170. sæti á FIFA-listanum.

„FIFA Series er jákvætt skref fram á við fyrir landsliðin í heiminum. Knattspyrnusamböndin hafa lengi talað um það að fá að mæta þjóðum út um allan heim. Nú er möguleiki fyrir þá að gera það innan landsleikjaglugganna,“ sagði Gianni Infantino, forseti FIFA.

Hann segir að minni þjóðirnar fái nú tækifæri til að spila við þjóðir úr öðrum álfum.

Riðlana fimm má sjá hér fyrir neðan.

  • FIFA Series í Alsír: Alsír, Suður-Afríka, Bólivía, Andorra.
  • FIFA Series í Aserbaídsjan: Aserbaídsjan, Mongólía, Búlgaría, Tansanía
  • FIFA Series í Sádi-Arabíu A: Grænhöfðaeyjar, Kambódía, Miðbaugs-Gínea, Gvæjana.
  • FIFA Series í Sádi-Arabíu B: Bermúda, Brúnei, Gínea, Vanúatú.
  • FIFA Series í Srí Lanka: Srí Lanka, Bútan, Mið-Afríku­lýðveldið, Papúa Nýja-Gínea.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×