Enski boltinn

Klopp: Við verðum að fara var­lega með Salah

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah er kominn aftur eftir meiðsli en hann var fljótur að meiðast aftur síðast. Liverpool mun því fara varlega með hann.
Mohamed Salah er kominn aftur eftir meiðsli en hann var fljótur að meiðast aftur síðast. Liverpool mun því fara varlega með hann. Getty/Nick Taylor

Mohamed Salah er byrjaður að æfa á ný með Liverpool en það er ljóst að Jürgen Klopp ætlar ekki að taka neina áhættu með hann.

Salah hefur verið að glíma við tognun aftan í læri. Hann meiddist í Afríkukeppninni í janúar og svo aftur eftir að hann byrjaði að spila á nýjan leik.

Salah gæti tekið þátt í fyrri leik Liverpool á móti Sparta Prag í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld. Klopp var spurður út í hann á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Mo Salah ferðaðist með okkur. Hann er búinn að æfa með okkur í tvo daga og er fullur af orku,“ sagði Jürgen Klopp.

„Við viljum fara varlega en það er mikið í gangi hjá okkur á þessum tímapunkti á tímabilinu. Við viljum nota hann og þetta eru því góðar fréttir,“ sagði Klopp.

Salah hefur skorað nítján mörk í öllum keppnum á leiktíðinni en hefur ekki spilað síðan 17. febrúar þegar hann kom inn á sem varamaður og skoraði í 4-1 sigri á Brentford.

„Það var óheppilegt eftir að hann var búinn að vera svona lengi frá. Hann átti ótrúlegan leik á móti Brentford en svo datt hann út. Svona er þetta bara,“ sagði Klopp.

Klopp segir að það sé ekki hans ákvörðun hvort Salah taki þátt í komandi landsleikjaglugga.

„Það er ákvörðun sem verður tekinn annars staðar. Sjáum til hversu mikið hann getur spilað með okkur núna. Ég kem ekki nálægt þeirri ákvörðun,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×