Hilmar Harðarson formaður Samiðnar, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Vilhjálmur Birgisson formaður SGS gengu til fundar með forsætisráðherra í stjórnarráðinu í morgun til að ræða aðkomu stjórnvalda að kjarasamningunum.
„Við vorum að fara yfir aðgerðir stjórnvalda til að greiða fyrir kjarasamningum. Þessi hópur er fyrstur í þeirri röð að gera samninga. Auðvitað höfum við átt í miklu samtali við aðila vinnumarkaðarins í aðdraganda þessara kjarasamninga. Þeir fundir hafa allir verið mjög jákvæðir og góðir. Þessi fundur var það líka. Það eru hins vegar einhverjir hnútar sem á eftir að hnýta og það verður unnið að því í dag,“ sagði Katrín að loknum fundinum.
„Við erum að reyna að vinna að því ríki og sveitarfélög að þessi yfirlýsing verði sameiginleg. Auðvitað felast mjög miklir hagsmunir, bæði fyrir ríki og sveitarfélög, í því að hið opinbera sé samstillt og við séum með sambærilega kjarasamninga þvert á allan vinnumarkaðinn.“
Hún segir að það yrði í raun einstakt tækifæri fyrir samfélagið náist langtímakjarasamningar sem stuðla að verðstöðugleika og lækkun vaxta ef á sama tíma er ráðist í félagslegar aðgerðir til að efla velferð allra landsmanna.
„Þetta er ótrúlega mikilvægur tímapunktur sem við erum á og ég vil segja það að mér finnst aðilar vinnumarkaðarins hafa nálgast þetta verkefni með mjög jákvæðum og lausnamiðuðum hætt og vona alveg innilega að það náist saman síðar í dag eins og mögulegt er.“
Vilhjálmur Birgisson sagði að loknum fundi með forsætisráðherra að aðgerðapakki stjórnvalda liti vel út og muni styðja vel við kjarasamningana. Undir þetta tóku félagar hans og bætti Sólveig Anna því við að hún hefði fulla trú á að sveitarfélögin komi að borðinu í dag.
„Þegar það gerist erum við tilbúin til að setjast að borðinu og ganga frá tímamótasamningi. Ég tel að það verði skrifað undir í dag. Ég trúi ekki öðru,“ sagði Sólveig.