Littler hrósaði sigri á Opna belgíska, hans fyrsta móti á Evrópumótaröðinni. Hann náði meðal annars níu pílna leik í úrslitunum gegn Rob Cross.
Í undanúrslitunum sigraði Littler Þjóðverjann Ricardo Pietreczko, 7-3. Sá síðarnefndi var ekki sáttur eftir leikinn og lét Littler heyra það uppi á sviðinu.
Pietreczko hélt svo áfram á Instagram eftir leikinn þar sem hann skammaði Littler fyrir hroka.
„Ég met hann mikils, að geta spilað svona leik á þessum aldri, en ég vona að hrokinn komi í bakið á honum,“ skrifaði Pietreczko.
Hinn sautján ára kom hins vegar af fjöllum og sendi Pietreczko skilaboð á Twitter. „Hef ekki hugmynd hvað ég gerði rangt, ekki hugmynd hvað hann sagði, eitthvað en ekki gera það aftur.“
Littler fékk þrjátíu þúsund pund fyrir sigurinn á Opna belgíska, það mesta sem hann hefur fengið fyrir sigur á móti.