Benóný var ásamt fleiri fyrrverandi flugstjórum Landhelgisgæslunnar mættur í flugskýlið í dag til að fylgjast með.
„Þetta er svona fyrsta fullkomna björgunarþyrlan sem að kemur til Íslands og það er árið 1995 og þá flugum við henni fjórir fyrrverandi starfsmenn frá Marseille í Frakklandi, þar sem eru verksmiðjurnar, til Íslands. Það var gríðarlegt framfararskref. Að okkar mati þá var þetta ein fullkomnasta björgunarþyrla í Norður-Atlantshafi á þeim tíma.“
Sjálfur hefur hann ekki tölu á hversu oft hann flaug þyrlunni en segir hana hafa reynst vel við erfiðar aðstæður
„Hún var notuð í mörgum erfiðum björgunarflugum þessi vél á þessum tuttugu og fimm árum sem hún var í þjónustu.“

Nokkur ár eru síðan hætt var að fljúga þyrlunni en það var öldungaráð Landhelgisgæslunnar sem hafði frumkvæðið að því að þyrlan yrði varðveitt og flutt á safn.
„Ég veit að það er fullt af fólki sem ber hlýjar tilfinningar til þessarar björgunarþyrlu og ég er líka sannfærður um það að það fólk er líka mjög þakklátt fyrir að vita af því að hún fái hvíldina sína á flugsafninu á Akureyri hjá litlu systur sinni.“