Íslenski boltinn

Kröfurnar um titil minnki klár­­lega ekki með inn­komu Gylfa

Aron Guðmundsson skrifar
Valsmenn eru skiljanlega í skýjunum með að hafa landað Gylfa Þór Sigurðssyni. Viðbót við leikmannahóp liðsins sem vakið hefur gríðarlega athygli.
Valsmenn eru skiljanlega í skýjunum með að hafa landað Gylfa Þór Sigurðssyni. Viðbót við leikmannahóp liðsins sem vakið hefur gríðarlega athygli. Vísir/Samsett mynd

Arnar Grétars­son, þjálfari Vals, er þakk­látur fólkinu í knatt­spyrnu­deild fé­lagsins fyrir að hafa landað Gylfa Þór Sigurðs­syni sem skrifaði undir tveggja ára samning í gær. Gylfi sé á á­kveðinni per­sónu­legri veg­ferð, vilji á sama tíma vinna titla með Val og segir Arnar að kröfurnar um að hann fari að skila inn titlum sem þjálfari liðsins minnki klár­lega ekki með inn­komu Gylfa Þórs.

„Að­dragandinn að þessu er langur eins og þið vitið. Við fengum Gylfa Þór til okkar á æfingar um síðasta sumar. Þá ríkti mikil eftir­vænting fyrir því að við myndum fá þennan frá­bæra knatt­spyrnu­mann aftur á knatt­spyrnu­völlinn. Hvað þá til Ís­lands. Hann á­kveður svo að fara út til Lyng­by og síðan þá hefur haldist gott sam­band okkar á milli,“ segir Arnar að­spurður um að­dragandann að skiptum Gylfa Þórs yfir til Vals.

Þráðurinn tekinn upp

„Þegar að þessi staða kemur svo aftur upp núna. Þá er þráðurinn bara tekinn upp. Það er rosa­lega mikill metnaður, fyrst og fremst, í þessu fé­lagi sem skilar þessu. Heiður að fá að þjálfa hjá Val. Þetta rúma ár sem ég hef verið hjá fé­laginu hef ég séð hversu mikill metnaður býr í því.

Hvað fólk er reiðu­búið að leggja mikið á sig. Stjórnar­menn, meistara­flokks­ráðið og allt fólkið í kringum fé­lagið. Menn vilja búa til um­gjörð sem laðar að svona topp­leik­menn eins og Gylfa Þór. Það átti stóran þátt í því að draga hann til okkar.“

Gylfi Þór Sigurðsson og Arnar Grétarsson þjálfari Vals eftir að Gylfi hafði krotað undir samning Valur

Koma Gylfa Þórs á Hlíðar­enda séu geggjaðar fréttir. Fyrir alla Val­sara sem og allt knatt­spyrnu­á­huga­fólk á Ís­landi, að fá þennan frá­bæra knatt­spyrnu­mann á völlinn á Ís­landi. „Það er eftir­vænting og fyrst og fremst spenna ríkjandi fyrir því,“ segir Arnar.

„Við höfum alltaf haldið góðu sam­bandi við hann. Höfum alltaf sagst taka á móti honum með opnum örmum og boðið hann vel­kominn ef hugur hans leitaði til Ís­lands. Við skiljum það þó líka á sama tíma að svona leik­maður, með svona prófíl, gæti á hverri stundu fengið eitt­hvað meira að­laðandi til­boð er­lendis frá. Við vonuðumst náttúru­lega alltaf til þess að hann myndi kannski enda ferilinn á Ís­landi.“

Hjá Gylfa Þór ríki enn mikill metnaður.

„Hann ætlar að koma heim og standa sig vel. Hann er ekki að koma heim til þess að leggja skóna á hilluna. Honum langar að gera al­vöru hluti, hætta á toppnum. Hann vill kveðja knatt­spyrnu­sviðið með þeim hætti að menn muni eftir honum í al­vöru standi.“

„Gylfi hefur enn ekki unnið stóran titil þrátt fyrir að eiga geggjaðan feril að baki sem at­vinnu­maður. Hann vill koma heim, standa sig virki­lega vel og vinna titla með Val. Það hljómar mjög vel í mín eyru sem og eyru allra Vals­manna. Þetta eru bara frá­bærar fréttir fyrir alla.“

Pressan minnkar alla­vegana ekki

Fyrir komandi tíma­bil í Bestu deildinni hefur lið ríkjandi Ís­lands- og bikar­meistara verið talið lík­legast til af­reka. Vals­menn hafa verið það lið sem talið er geta veitt Víkingum hvað mesta sam­keppni í deildinni og er koma Gylfa Þórs til fé­lagsins byr í segl fé­lagsins.

Er meiri pressa komin á þig núna, með komu Gylfa Þórs, sem þjálfari liðsins að fara skila inn titlum?

„Pressan minnkar alla­vegana ekki með komu Gylfa Þórs í leik­manna­hóp liðsins. En ég hef alveg sagt það, meðal annars þegar að ég kom til fé­lagsins í fyrra, að Valur stæði kannski að­eins aftar en bestu lið deildarinnar. En það er alveg klárt, og var það líka í fyrra miðað við leik­manna­hóp okkar, að við ætlum að reyna landa öllum þeim titlum sem í boði eru. Það eru ekki ó­raun­hæfar kröfur.“

„Við vitum alveg að Víkingur Reykja­vík er með hrika­lega flott lið. Þá hafa Breiða­blik og KR verið að bæta við sig sterkum leik­mönnum. Það eru mörg lið þarna úti sem gera til­kall í að gera ein­hverja hluti. Kröfurnar hjá Val eru þær, og munu verða það á­fram, að það er farið inn í hvert einasta mót til þess að sækja titil eða titla.

Þær kröfur minnka klár­lega ekki með til­komu Gylfa. Hvort það séu auknar kröfur á mig per­sónu­lega sem þjálfari liðsins veit ég ekki. Ég tek því ekki þannig. Ég bara fagna því að Gylfi Þór sé kominn í raðir okkar Vals­manna. Þetta eykur okkar líkur á að ná okkar mark­miðum. Sömu­leiðis lyftir þetta öllu fé­laginu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×