Gylfi hefur verið að jafna sig af meiðslum síðustu mánuði og stundað æfingar á Spáni. Fyrst einn með sjúkraþjálfara og svo mætti hann á æfinga hjá bæði Fylki og Val þegar þau voru í æfingaferðum sínum, áður en hann samdi við Val í síðustu viku. Hann segir standið allt vera að koma til.
„Standið er bara fínt. Mér leið mjög vel úti, það er smá öðruvísi að koma í kuldann og byrja að æfa á gervigrasinu en mér leið mjög vel eftir æfinguna í gær. Þetta snýst allt um að stýra álaginu næstu vikur,“ segir Gylfi.
Gylfi er klár í slaginn fyrir kvöldið en gera má ráð fyrir að hann byrji á bekk Valsara. Hann treystir sér til að spila meira en hann fær líklega leyfi fyrir frá sjúkraþjálfarateymi Vals.
„Ég treysti mér alltaf til að spila heilmikið en það er kannski ekkert gáfulegt. En eins og við höfum rætt við þjálfarann og sjúkraþjálfarann þá ætlum við að stjórna þessu. [Ég spila] kannski aðeins minna en mig myndi langa. Líklega er betra að gera aðeins minna til að byrja með og síðan auka þetta jafnt og þétt,“ segir Gylfi.
Valur og ÍA mætast klukkan 18:00 að Hlíðarenda í kvöld. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.