Stjórnendur Landspítalans hafa frá árinu 2019 fjórum sinnum gert viðamiklar breytingar á skipuriti spítalans. Árið 2022 var til dæmis ákveðið að fjölga framkvæmdastjórum og leggja niður störf forstöðumanna.
Nú hefur enn á ný orðið algjör kúvending á skipuriti spítalans þar sem forstöðumenn koma aftur inn og að þessu sinni eru þeir tuttugu og þrír. Þannig eru nú bæði forstöðuhjúkrunarfræðingur og forstöðulæknir undir hverjum framkvæmdastjóra á klínískum sviðum spítalans. Undir forstöðumönnunum eru svo áfram deildarstjórar og yfirlæknar. Auk þess koma inn tvö ný störf á skrifstofu forstjóra.
Hinir nýráðnu forstöðumenn störfuðu nánast allir áður á spítalanum og færast því ofar í skipuriti.
Nýir stjórnendur eigi að starfa á gólfinu
Björn Zoëga stjórnarformaður Landspítalans tekur fyrir það að verið sé að bæta við enn einu laginu af stjórnendum.
„Það er bara verið að dreifa valdi með þessari breytingu. Það er megin hlutverk þessara stjórnenda að vinna með fólkinu, að vera nálægt gólfinu og fylla í eyður í mönnun og annað sem skortir á. Þetta er hugsað til að bæta mönnun því stjórnendur hafa betri yfirsýn og fleiri tækifæri til að lokka til sín starfsfólk,“ segir Björn.
Hann segir að áætlaður kostnaður við breytingarnar sé um 240-250 milljónir króna á ári sem greiðist úr ríkissjóði.
„Við erum komin á þjónustutengda fjármögnun sem þýðir að þegar við sjáum fleiri sjúklinga fáum við borgað fyrir það. Við sjáum nú þegar að þetta leiðir til aukinnar framleiðslu og framleiðni á spítalanum,“ segir hann.
Mikilvægt að upplýsa starfsfólk
Hann segist hafa heyrt af efasemdum frá starfsfólki spítalans um breytingarnar en telur þær framfaraskref.
„Það er ekkert skrítið að það sé ákveðinn efi í kringum breytingar. Það er eðli spítala og menntastofnana að hafa ákveðna íhaldssemi og það er eðlilegt að það komi fram við svona breytingar. En ég segi alltaf að það þarf að vinna með slíkt og upplýsa starfsfólk,“ segir Björn.
Björn sem var forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Svíþjóð um árabil segir að svipað fyrirkomulag sé þar og hafi reynst vel.
„Yfirstjórn á Landspítalanum í samráði við stjórnina vann að útfærslu á þessari breytingu eftir ráðleggingar og aðstoð frá Mckinsey ráðgjafafyrirtækinu. Þetta var líka eina fyrirkomulagið sem virkaði á mínu gamla sjúkrahúsi í Svíþjóð,“ segir Björn.