Bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar segist illa slegin yfir fréttum af því að ekkert áætlanaflug verði til eyja frá og með mánaðamótum og segir skrýtið að þurfa að fara í sama slaginn á ári hverju. Vegagerðin ákvað að framlengja ekki samning um slíkt flug, en bæjarstjórinn segir ábyrgðina helst liggja hjá Alþingi.
Guðni Th. Jóhannesson ætlar að snúa sér að sagnfræðirannsóknum og kennslu þegar hann lætur af embætti forseta Íslands. Hann eigi meðal annars eftir að ljúka sögu landhelgismálsins og segir kíminn; að engir hafi breytt gangi sögunnar jafn mikið og sagnfræðingarnir.
Þá förum við yfir stöðuna á eldgosinu á Reykjanesskaga, sjáum frá pálmasunnudegi í Pétursborg, forvitnumst um uppbyggingu á nýrri hjólabrettaaðstöðu og komumst að því í beinni útsendingu hvernig færðin verður í Bláfjöllum um páskana.
Þetta og fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.