Bæjaryfirvöld í Grindavík kölluðu eftir því í gær að ríkið komi að fjármögnun sprungufylinga og viðgerða í bænum. Frumniðurstöður jarðvegskönnunar hafa verið gefnar út og kynntar fyrir bæjarstjórn. Níu svæði hafa í kjölfarið verið girt af þar sem holrými og hættur sem leynast neðanjarðar komu í ljós. Bæjarstjórn segir verkefnið hlaupa á hundruðum milljóna.
„Það er náttúrulega augljóst að þetta verkefni er eitt af þeim risavöxnu verkefnum sem bæjarstjórnin og bæjaryfirvöld í Grindavík þurfa að fjalla um. Við gerðum samning við sveitarstjórnina um daginn um að styrkja þeirra umgjörð til að taka ákvarðanir á stjórnsýslu- og fjárhagslegu sviði,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra um málið.
Hann segir nú þurfa að svara þeirri spurningu hver eigi að halda utan um þessi verkefni, sem hafi verið í höndum nokkurra, þar á meðal Almannavarna og Vegagerðarinnar.
„Það er auðvitað eðlilegast að sveitarfélagið haldi utan um þetta en það er ekki óeðlilegt að það óski eftir einhvers konar stuðningi við að gera það. Fyrst þarf auðvitað að fara í gegn um umtalsverðar greiningar á því: Er þetta gerlegt? Hvert er kostnaðarmat? Hvert er markmiðið? Ég held að þetta sé frekar upphafið að þessu samtali heldur en að komið sé að því að einhverjir ráðherrar taki ákvörðun um það,“ sagði Sigurður Ingi að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Augljóst sé að hans mati að þetta verkefni falli undir sveitarfélagið. Inntur eftir því hvort hann telji gerlegt að fylla upp í sprungurnar segir hann:
„[Það] er augljóst að þarna þarf að fara fram gríðarleg greining á því hvað er gerlegt, hvað er hægt, hvað kostar það, hvernig nálgumst við það og í hvaða tilgangi er það gert,“ segir Sigurður Ingi.
Frumniðurstöður jarðvegskönnunarinnar hafi ekki verið kynntar ríkisstjórn.
„Og eins og ég segi er mikilvægt að þarna sé einhver miðlægur aðili sem getur ekki verið neinn annar á þessu stigi en bæjarstjórn. Það er líka og er alveg yfirlýst skoðun ríkisstjórnar, og klárlega mín, að við þurfum að koma að því með einhverjum hætti. En ég held það sé ekki tímabært að fjalla um það akkúrat núna.“