Íslenski boltinn

Þór/KA sækir mark­vörð til Banda­ríkjanna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nýr markvörður Þórs/KA.
Nýr markvörður Þórs/KA. Þór/KA

Þór/KA hefur samið við Shelby Money um að leika með liðinu í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í sumar. Sem stendur er hún ekki komin með leikheimild en sú ætti að vera gengin í gegn áður en leikar hefjast þann 21. apríl næstkomandi.

Money verður 27 ára í apríl og kemur frá New Jersey í Bandaríkjunum. Spilaði hún með Rowan-háskólanum frá 2015 til 2018. Síðan hefur verið á mála hjá Racing Louisville FC og nú síðast Gotham FC í NWSL-deildinni í Bandaríkjunum.

„Ég er þakklát fyrir tækifærið að prófa eitthvað nýtt og halda áfram að byggja upp ferilinn. Þór/KA vakti áhuga minn þar sem klúbburinn virðist eins og ein stór fjölskylda og ég hlakka til að komast inn í hópinn og kynnast fólkinu,“ segir markvörðurinn í tilkynningu Þórs/KA.

Viðbæturnar lofa góðu

Eins og gengur og gerist hafa orðið þónokkrar breytingar á leikmannahópi liðsins á milli ára.

Þór/KA hefur nú þegar samið við þrjá erlenda leikmenn í stað þeirra þriggja - Dominique Randle, Melissa Lowder og Tanhai Annis - sem léku með liðinu á síðustu leiktíð. Þá er Jakobína Hjörvarsdóttir gengin í raðir Breiðabliks.

Eins og staðan er núna hefur félagið fengið þrjá erlenda leikmenn frá þremur mismunandi löndum til liðs við sig. Money kemur frá Bandaríkjunum, Lara Ivanusa kemur frá Slóveníu og Lidija Kulis frá Bosníu.

„Lara og Lidija hafa nú þegar komið við sögu í nokkrum leikjum með liðinu í Lengjubikarnog lofa góðu um framhaldið,“ segir einnig í tilkynningu Þórs/KA.

Þór/KA hefur leik í Bestu deild kvenna á erfiðasta möguleika máta, með útileik gegn ríkjandi Íslandsmeisturum Vals þann 21. apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×