„Platan þrjátíu og þrír kom út 22. mars síðastliðinn og er gefin út af Öldu Music. Platan er fyrsta breiðskífan mín á ferlinum en ég hef gefið út hátt í tuttugu lög sem lagahöfundur eða flytjandi. Einnig hef ég gefið út þrjár EP plötur með hljómsveitum en aldrei breiðskífu svo það var klárlega kominn tími á hana,“ segir Júlí Heiðar.
Að plötunni koma þrír pródúserar, þeir Ásgeir Orri Ásgeirsson, Ingimar Birnir Tryggvason og Bjarki Ómarsson. Það eru svo þeir Bjarki Ómarsson og Sæþór Kristjánsson sem sjá um hljóðblöndun og hljóðjöfnun á plötunni.
„Þrjátíu og þrír er í grunninn popp plata þó sum lögin teygi sig í aðrar áttir. Þegar ég fór af stað í verkefnið langaði mig að hver pródúsent fengi rými til þess að gera sitt. Útkoman er frekar fjölbreytt plata sem var nákvæmlega það sem ég lagði upp með.“
Júlí Heiðar segir textana marga hverja persónulega. Það hafi verið rauður þráður í lögunum hans síðustu þrjú ár. Þó komi textar inn á milli sem hafi sprottið hafi upp úr flæði í upptökunum.
„Það sem stóð upp úr í þessu ferli er klárlega samstarfið með öllu því frábæra fólki sem kom að plötunni, pródúserar, Anna Maggý sem sá um artworkið og allir þessir geggjuðu gestaflytjendur sem gáfu sér tíma í að taka þátt í verkefninu. Patrik, Jói Pé, Gugusar, Kristmundur Axel og Huginn.“





















Hægt er að hlusta á plötuna í heild sinni hér að neðan: