Innlent

Segir Sam­fylkinguna til­búna í kosningar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar segir flokkinn tilbúna fyrir þingkosningar.
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar segir flokkinn tilbúna fyrir þingkosningar. Vísir/Vilhelm

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar segir flokkinn tilbúinn í kosningar. Flokkurinn hafi unnið vel síðustu ár að langtímahugmyndum fyrir næstu ríkisstjórn. 

Samfylkingin mælist nú með tæplega 31 prósenta fylgi í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, sem er það mesta sem flokkurinn hefur mælst með síðan 2009. Yrðu þetta niðurstöður Alþingiskosninga fengi flokkurinn 21 þingmann, sem er meira en ríkisstjórnarflokkarnir þrír samanlagt, með nítján þingmenn. 

Kristrún segir ekki sjálfgefið að njóta jafn mikils stuðnings og flokkurinn gerir nú. 

„Það er bara frábært að finna fyrir þessum stuðningi. Við erum mjög meðvituð um það að þetta eru bara kannanir en það skiptir máli að finna að þjóðin er að hlusta á okkur,“ segir Kristrún í samtali við fréttastofu. 

Þingflokkurinn hefur síðustu fundi ferðast um landið að ræða atvinnu- og samgöngumál. Í byrjun árs hafi hann heimsótt 180 fyrirtæki og síðan haldið 25 opna fundi um allt land. Þá nefnir Kristrún að 20. apríl næstkomandi verði haldinn flokksstjórnarfundur á Laugarbakka. 

„Þannig að kannski getur eitthvað af þessu tengst því en við höfum bara verið að vinna vinnuna okkar og tala við fólkið í landinu.“

Eru þið tilbúin í kosningar?

„Samfylkingin er auðvitað bara tilbúin. Við höfum verið að vinna vinnuna okkar jafnt og þétt í mjög marga mánuði. Þessi vinna í atvinnu-og samgöngumálum er stór partur af því, við vorum með útspil í heilbrigðismálum fyrir jól, við erum að fara í húsnæðis- og kjaramálin en erum líka með sterkan grunn til að vinna á þar,“ segir Kristrún. 

„Þetta hefur ekki verið skammtímavinna hjá okkur, þetta eru langtímahugmyndir sem við erum að vinna í um hvað er raunhæft í næstu ríkisstjórn og það er bara komin ágætismynd á það þannig að við verðum alltaf tilbúin.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×