Halldór fékk að líta rautt spjald gegn Val í Meistarakeppni KSÍ í vikunni og er af þeim sökum í leikbanni í kvöld. Hann segir meira stress fyrir kvöldinu í því ljósi að hann geti ekki spilað. Honum þykir erfitt að horfa á leiki síns liðs án þess að geta haft áhrif.
„Það er meiri. Alveg klárlega. Síðast var ég í stúkunni í undanúrslitum gegn KR núna seinasta haust. Þá sat ég hérna með Matta Vill og ég var bara farinn út í Elliðaárdal á fertugustu mínútu. Ég meika þetta ekki,“ segir Halldór í samtali við Stöð 2.
Stjörnunni gekk afar vel á seinni hluta mótsins í fyrra og Halldór býst við að Garðbæingar mæti öflugir til leiks í kvöld.
„Manni líður svipað, umtalið er gott og ekkert að ástæðulausu. Þeir spila frábæran bolta og gengur mjög vel. Þetta er strembinn fyrsti leikur. Fyrir Stjörnuna að koma inn í þennan leik gegn meisturunum hafa þeir engu að tapa, þannig lagað,“
„Þetta er fínn leikur fyrir þá til að byrja mótið. Við þurfum heldur betur að vera klárir í þetta vegna þess að þetta verður hrikalega tough,“ segir Halldór.
Bæði lið sækja gjarnan til sigurs og því von á skemmtilegum leik. Fyrir alla nema Halldór sem verður ráfandi um stúkuna og Fossvoginn.
„Já, alla nema mig. Ég vona náttúrulega bara að það verði hérna 3-0 fyrir okkur í fyrri hálfleik og að þetta verði ekki skemmtilegt fyrir Stjörnuna. En fyrir hlutlausa vona ég að þetta verði góð skemmtun,“ segir Halldór.
Leikur Víkings og Stjörnunnar er klukkan 19:15 í kvöld. Bein útsending hefst klukkan 18:45 þar sem hitað verður upp fyrir leiki helgarinnar.
Rætt verður nánar við Halldór Smára í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld. Viðtalið við hann í heild verður birt á Vísi á sunnudagsmorgun.