Í fréttum Stöðvar 2 voru höfuðstöðvar Air Atlanta í Kópavogi heimsóttar. Sennilega hafa fæstir Íslendinga flogið með því þótt það teljist næst stærsta flugfélag þjóðarinnar enda felst þjónusta þess einkum í því að fljúga fyrir önnur flugfélög og félög í fraktþjónustu.

Það þótti stórt stökk þegar Atlanta fékk sína fyrstu Boeing 747 þotu fyrir rúmum þrjátíu árum. Hún var merkt Saudia-flugfélaginu, kaupanda þjónustunnar, en skráð á Íslandi, TF-ABK, og hlaut nafnið Agnar Kofoed-Hansen.
Í fyrra urðu önnur tímamót í sögu Atlanta þegar það fyrst íslenskra félaga tók Boeing 777-breiðþotuna í notkun, raunar tvær, einnig til að fljúga fyrir Saudia. Núna eru tvær aðrar 777 að bætast við.

„Við erum með teymi núna í Bandaríkjunum sem er að vinna að móttöku á þessum tveimur viðbótarvélum og gerum ráð fyrir að þær verði klárar núna í maí-júní,“ segir Baldvin Már Hermannsson, forstjóri Air Atlanta.
Atlanta verður jafnframt með tvær 747-farþegaþotur í pílagrímafluginu.

„Allar sex verða notaðar í pílagrímafluginu. Svo munum við eitthvað taka af áætlunarflugum fyrir okkar kúnna, Saudia, líka, inn á milli. En uppleggið er, svona næstu þrjá mánuðina, þegar pílagrímaflugið fer af stað, er að fyrst og fremst fókusa á pílagrímana.“
Þá hefur Atlanta einnig fest kaup á þremur 747-fraktþotum, sem afhentar verða í haust.
„Það er rétt, 747-400, framleiddar sem fraktvélar. Við kaupum þær frá China Airlines. Þetta eru vélar sem eru að bera allt upp undir 120 tonn, með gríðarlega flutningsgetu.“

Flugflotinn stefnir í að verða allmyndarlegur og eingöngu breiðþotur.
„Fraktvélarnar verða fjórtán talsins, sem eru veruleg umskipti frá því sem var bara fyrir covid þegar við vorum í fjórum – fimm. Þannig að við verðum þá komnir upp í fjórtán vélar.
Og farþegaflotinn verður þá að lágmarki fjórar vélar og jafnvel sex, eftir því hvaða ákvarðanir við tökum í flotamálum á komandi hausti,“ segir Baldvin.

Starfsmannafjöldinn stefnir yfir eittþúsund manns, þar af starfa um þrjúhundruð Íslendingar hjá félaginu, en yfir eitthundrað manns vinna í höfuðstöðvunum í Kópavogi.
„Þetta er heljarinnar átak og mikil vinna, bæði við að koma vélunum í gott stand áður en þær koma inn í reksturinn, þjálfa mannskap, gera allt klárt hérna innandyra og erlendis.
Við munum vera með í kringum 1.200 til 1.300 manns í vinnu í það heila þegar útgerðin verður komin á fullt. Já, þetta er heljarinnar útgerð.“

Raunar stefnir í stærsta ár Air Atlanta.
„Í dag erum við að fljúga meira heldur en við höfum nokkurn tíma gert áður, hvort sem það er í fjölda flugstunda eða lengd fluga. Við erum að fljúga verulega mikið og ég held að ef allt fer sem horfir þá mun þetta ár, 2024, verða okkar allra stærsta ár,” segir Baldvin Már Hermannsson, forstjóri Air Atlanta.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: