Kaup Landsbankans á TM hafa verið umdeild. Bankasýsla ríkisins telur að upplýsingagjöf Landsbankans til sín hafi ekki verið í samræmi við ákvæði samnings um almenn og sértæk markmið í rekstri bankans og ákvæði eigandastefnu ríkisins. Þá hafi hún ekki verið með þeim formlega hætti sem áður hefur verið viðhafður, ólíkt upplýsingagjöf Landsbankans til Bankasýslu ríkisins um áhuga bankans á TM í júlí 2023.
Tilboðið í TM hafi ekki verið í samræmi við ákvæði eigandastefnu ríkisins um áherslur á arðgreiðslur og niðurgreiðslur skulda ríkisins og lágmörkun á áhættu, sérstaklega í ljósi þess að ekki stendur til að selja hlut ríkisins í bankanum í náinni framtíð. Enginn fyrirvari hafi verið gerður í tilboði bankans um samþykki hluthafafundar.
Bankasýslan hætti við að tilnefna fimm bankaráðsmenn til áframhaldandi setu og leggur nú til fimm nýja menn inn fyrir aðalfund sem verður haldinn á föstudag eftir viku. Sjö manns skipa bankaráðið en tveir núverandi bankaráðsmenn höfðu áður tilkynnt að þeir gæfu ekki kost á sér áfram.
Óskaði hvorki eftir gögnum né gerði athugasemdir
Í yfirlýsingu sem bankaráð Landsbankans sendi frá sér nú síðdegis fullyrðir það að Bankasýslan hafi verið upplýst í símtali um að bankinn væri þátttakandi í söluferli TM sama dag og bankinn gerði óskuldbindandi tilboð í tryggingafélagið 20. desember.
„Bankasýslan setti aldrei fram athugasemdir eða óskaði eftir frekari upplýsingum eða gögnum fyrr en eftir að tilboð bankans hafði verið samþykkt,“ segir í yfirlýsingunni.
Bankasýslan hafi sjálf staðfest að það hafi verið á forræði bankaráðsins að taka ákvörðun um að bjóða í TM. Hafi Bankasýslan talið að afla þyrfti samþykkis hluthafafundar fyrir kaupunum þá hafi hún haft mörg tækifæri til þess að koma því áliti á framfæri, að sögn bankaráðsins.
Bankaráðinu finnst miður að Bankasýslan líti svo á að hún hafi ekki fengið upplýsingar með nægilega formlegum hætti um áform Landsbankans og telur sig hafa uppfyllt skyldur sínar um upplýsingagjöf.
„Bankaráði þykur miður að ákvörðun um kaup á TM, sem var tekin með hagsmuni Landsbankans, hluthafa og viðskiptavina að leiðarljósi, hafi orðið jafn umdeild og raun ber vitni,“ segir í yfirlýsingu bankaráðsins.
Vísar bankaráðið í hluta eigendastefnu ríkisins sem segir að ríkið stefni ekki að því að eiga meirihluta í fjármálafyrirtækjum á markaði til lengri tíma. Því sé mikilvægt að umsýsla eignarhluta þess sé fagleg, traust og á markaðsforsendum, meðal annars til þess að hámarka söluandvirði og arðgreiðslur fyrir skattgreiðendur.
Fréttin verður uppfærð.