Við ræðum við eiganda eins stærsta verktakafyrirtækis landsins í beinni útsendingu.
Við verðum einnig í beinni frá Alþingi, förum yfir nýja fjármálaætlun sem geymir engar tillögur um niðurskurð, og heyrum í Pírötum um vantrauststillögu á ríkisstjórnina.
Tveir fyrrverandi frambjóðendur koma í myndver og ræða dóm Mannréttindadómstóls Evrópu sem telur að brotið hafi verið gegn mannréttindum þeirra við framkvæmd síðustu kosninga.
Þá hittum við listamanninn Sindra Ploder, sjáum myndir frá stórbruna í Kaupmannahöfn og verðum í beinni frá frumsýningu nýrrar íslenskrar heimildamyndar.
Í sportinu verður rætt við framkvæmdastjóra HSÍ um gestgjafahlutverk Íslands á HM karla í handbolta auk þess sem fótboltamaður í Breiðabliki opnar sig um þunglyndi.
Í Íslandi í dag verður rætt við einn fremsta sundmann þjóðarinnar sem vill að dánaraðstoð verði leidd í lög.
Kvöldfréttir Stöðvar 2 verða í opinni dagskrá á Stöð 2, Vísi og Bylgjunni klukkan 18:30.