Hér á landi eru happdrættis- og veðmálafyrirtæki leyfisskyld en einungis sex fyrirtæki má starfrækja hér á landi. Þrátt fyrir það hafa fjölmörg slík fyrirtæki sprottið upp hér, þeirra á meðal Coolbet og Betson.
Coolbet er líklega sú veðmálasíða sem vekur hvað mesta athygli. Þrátt fyrir að hana megi ekki starfrækja hér á landi virðast Íslendingar starfa fyrir fyrirtækið sem heldur úti íslenskri síðu.
Þrjú ár eru síðan Daði Laxdal, titlaður svæðisstjóri Coolbet á Íslandi sagði fyrirhugað að ráða hundrað nýja starfsmenn til fyrirtækisins: „Dauðafæri fyrir Íslendinga“ tístaði hann.
Coolbet má heldur ekki auglýsa starfsemina á Íslandi en efni sem mætti flokka sem duldar auglýsingar eru áberandi.
Watch on TikTok
Tónlistarmenn, útvarpsmenn og áhrifavaldar klæðast ítrekað fatnaði merktu fyrirtækinu - í vinnunni og við skemmtanir.
Í íburðarmiklu tónlistarmyndbandi Prettyboitjokkó eru samstarfsaðilar tilgreindir í upphafi myndbands. Coolbet er ekki þar á meðal en síða fyrirtækisins kemur oftar en einu sinni fram í myndbandinu.
„Það er náttúrulega ekkert eftirlit, það er staðreyndin,“ segir Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn, þegar hún var spurð út í eftirlit með starfseminni.Alma segir áhyggjuefni að þeir sem klæðast varningi merktu veðmálasíðunum séu oft fyrirmyndir barna- og ungmenna.
Fjölmiðlanefnd hefur ekki eftirlit með duldum auglýsingum á TikTok eða Instagram þar sem miðlarnir eru ekki fjölmiðlar. Almennt eftirlit er í höndum dómsmálaráðuneytisins sem Alma sakar um sinnuleysi.
„Og á meðan fær þetta bara að grassera. Vandinn er það að ungmennin okkar þau koma til með að þurfa að borga fyrir það að stjórnvöld séu eins og hauslausar hænur.“
Watch on TikTok
Uppfært
Íslenskar stjörnur hafa tekið TikTok myndskeið þar sem þær eru klæddar í klæðnað frá Coolbet úr birtingu eftir að fréttin birtist. Það sést að ofan þar sem ekki er lengur hægt að horfa á myndbönd að frátöldu einu frá Coolbet.