Það var spennan í loftinu í skólanum í morgun þegar kosningarnar fóru fram en reynt að líkja eins mikið og hægt var eftir alvöru forsetakosningum. Síðustu daga hafa nemendur kynnt sér vel alla frambjóðendur og reynt að fylgjast með umræðunni í fjölmiðlum.
„Við vildum finna út úr því hvað krökkunum finnst hérna í 7. til 10. bekk og finna út hvort þetta eigi eftir að vera eitthvað svipað og úrslitin verða 1. júní eða hvort þetta verður svipað skoðanakönnunum og svo líka að fræða þau um lýðræði, hvernig er pælingin á bak við þetta, af hverju að kjósa, er kosningarétturinn mikilvægur,” segir Charlotte Sigrid á Kósini, kennari á Eyrarbakka.

Um var að ræða 50 nemendur, 25 stráka og 25 stelpur, engir kennarar eða aðrir starfsmenn skólans fengu að kjósa. Kosningaþátttaka var 70% og auðir og ógildir seðlar voru átta. Hlutfall utankjörfundaratkvæða var 2,8%.
„Við höfum það hlutverk að skrá alla, sem taka þátt í kosningunni og passa upp á að allir kjósi. Þetta er mjög skemmtilegt,“ segja vinkonurnar Elín Eyrún Herbertsdóttir, sem er í 9. Bekk og Bryndís Rós Van–Duin, sem er í 10. bekk
En má ég spyrja, hvað kusuð þið?
„Jón Gnarr, Jón Gnarr, ef þú ert eldri en átján þá myndi ég kjósa hann. Já, ég er sammála,” segir vinirnir Kristinn Georg Guðnason, sem er í 7. bekk og Orri Fannar Jónsson, sem er líka í 7. bekk.

Var þetta erfitt val?
„Smá, já, svolítið jú smá”.
En eigið þið eftir að sakna Guðna forseta?
„Alveg svakalega, já mjög, því hann er alltaf með buffið, við eigum eftir að sakna þess,” segja vinkonurnar Berta Sóley Grímsdóttir, nemandi í 10. bekk og Amelía Ósk Atladóttir, sem er líka í 10. bekk.

Má á ég spyrja þig hvern þú kaust?
„Baldur því hann er með safna nafn á kötturinn minn“, segir Lúkas Örn Sigurðsson, nemandi í 9. bekk.

