Myndavélin var staðsett í ísraelska bænum Sderot og var beint að norðurhluta Gasa. Ísraelar sökuðu AP-fréttastofuna um að brjóta fjölmiðlalögin vegna þess að al-Jazeera, sem var bannað að starfa á svæðinu á grundvelli laganna, er einn þúsunda viðskiptavina AP sem fá streymi frá myndavélinni.
Fjöldi fjölmiðlafyrirtækja fordæmdi haldlagninguna. Fréttastjóri AFP-fréttaveitunnar sagði aðgerðirnar mikið áhyggjuefni og skýra árás á fjölmiðlafrelsi. Bandaríkjastjórn hvatti ísraelsk stjórnvöld jafnframt til þess að láta undan sem þau og gerðu seinna í gær. Vefmyndavélin var komin aftur í gagnið snemma í morgun, að sögn AP.
Í yfirlýsingu sem fréttastofan sendi frá sér í gær fordæmdi Lauren Easton, varaforseti samskiptamála AP, harðlega aðgerðir ísraelskra stjórnvalda.
„Lokunin byggðist ekki á efni streymisins heldur á misnotkun ísraelsku ríkisstjórnarinnar á nýjum lögum landsins um erlenda ljósvakamiðla,“ sagði Easton.
NEW — statement from the @AP pic.twitter.com/VpnHTbPB3V
— Seung Min Kim (@seungminkim) May 21, 2024
Ekki hugnaðist þó öllum í Ísrael aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Yair Lapid, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, kallaði þær „brjálæði“.
Shlomo Karhi, fjarskiptaráðherra Ísraels, sagði lögin skýr um að stjórnvöld hefðu heimild til þess að leggja hald öll tæki sem væru notuð til þess að afhenda al-Jazeera efni.
„Við ætlum að halda áfram að grípa til skjótra aðgerða gegn hverjum þeim sem reynir að skaða hermenn okkar og öryggi ríkisins, jafnvel þótt þér líki það ekki,“ sagði Karhi við Lapid á samfélagsmiðlinum X.