Mál Begoñu Gómez forsætisráðherrafrúar hefur valdið nokkrum úlfaþyt á Spáni. Sánchez íhugaði að segja af sér vegna þess í síðasta mánuði. Gómez hefur ekki sjálf tjáð sig opinberlega um ásakanirnar eftir að rannsókn hófst en Sánchez sakar pólitíska andstæðinga af hægri vængnum um að standa að baki því.
Rannsóknin hófst eftir að samtökin Hreinar hendur lögðu fram kæru og sökuðu Gómez um að notfæra sér áhrif sín sem eiginkona forsætisráðherra til þess fá fjársterka aðila til þess að styrkja meistaranám sem hún hafði umsjón með. Forsvarsmaður Hreinna handa er Miguel Bernad sem bauð sig fram fyrir öfgahægriflokkinn Þjóðfylkinguna (sp. Frente Nacional) í Evrópuþingskosningum á níunda áratugnum.
Gómez þarf að koma fyrir dómara og svara fyrir ásakanirnar í Madrid 5. júlí, að sögn spænska dagblaðsins El País. Dómarinn frestaði skýrslutökum yfir vitnum sem áttu að koma fyrir dóminn á fimmtudag til sunnudagsins 16. júní. Blaðið segir afar óvenjulegt að vitni séu kölluð fyrir dóm á sunnudegi í máli sem er ekki í flýtimeðferð.
Dómarinn í málinu hafnaði kröfu saksóknara um að fella rannsóknina niður vegna skorts á sönnunargögnum í síðasta mánuði. Saksóknararnir beindu því til dómarans að einbeita sér að samskiptum Gómez við tiltekinn afthafnamann. Aðrar ásakanir Hreinna handa væru ótrúverðugar, byggðust á röngum dagsetningum og í sumum tilfellum algerum ágiskunum.
Hreinar hendur hafa sagt að ásakanirnar séu fengnar úr umfjöllun fjölmiðla og samtökin geti ekki staðfest áreiðanleika þeirra sjálf. Bernad hefur vísað því á bug að pólitískar bakir hafi búið að baki kærunnar, aðeins „borgaraleg skylda“.