Innlent

Skyn­sam­legt að loka gluggum og setja á hringrásarstillingu í bílnum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Gosmengun frá eldgosinu í Sundhnúksgígaröðinni liggur yfir höfuðborginni í dag.
Gosmengun frá eldgosinu í Sundhnúksgígaröðinni liggur yfir höfuðborginni í dag. vísir

Landris er hafið á nýjan leik undir Svartsengi og má því búast við að það gjósi aftur á Reykjanesskaganum. Gosmóða mælist yfir höfuðborginni og víðar á Suðurlandi og Suðvesturlandi og er fólki ráðlagt frá því að hreyfa sig utandyra.

Benedikt Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofunni segir óljóst hver staðan á landrisinu sé en það muni koma í ljós á næstu dögum. Kvikuflæði sé inn í Svartsengi og gera megi ráð fyrir öðru gosi á svæðinu í bráð.

Hækkun á fína svifrykinu

Gosmóða frá eldgosinu í Sundhnúksgígaröðinni liggur yfir höfuðborginni sem mun samkvæmt verkefnastjóra hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafa áhrif á þá sem eru viðkvæmir í öndunarfærum.

„Við sjáum á loftgæðamælistöðvunum í borginni hækkun á fína svifrykinu og við sjáum líka hækkun á brennisteinsdíoxíð. Það er einkennandi fyrir þessa gosmóðu að við getum illa mælt hana beint en við sjáum vísbendingarnar þegar gildin í fína svifrykinu hækka þannig að ástandið er ekkert sérstaklega gott,“ segir Svava S. Steinarsdóttir, verkefnastjóri hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Fólki ráðlagt frá hreyfingu utandyra

Þeir sem eru hraustir gætu þó fundið fyrir sviða í öndunarfærum og slímhúð. Þá er fólki ráðlagt frá því að hreyfa sig utandyra.

„Það eru leiðbeiningar inni á loftgæði.is til að styðjast við með útivist þegar gosmengun er í gangi.“

Svava segir skynsamlegt að loka gluggum á meðan móðan liggur yfir svæðinu.

„Og reyna, að ef fólk er að keyra í borginni í einhvern tíma, að vera með hringrásina á í bílnum, að draga ekki loft inn í bílinn.“

 Til hverra ná þessar leiðbeiningar, allra á höfuðborgarsvæðinu? 

„Já eins og þetta lítur út á gasdreifingarspá Veðurstofunnar og í mælistöðvunum þá virðist þetta dreifast yfir allt höfuðborgarsvæðið.“


Tengdar fréttir

Gosmóða yfir höfuðborgarsvæðinu í dag

Aðeins meiri virkni var í eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni í nótt en daginn áður og gígurinn ansi líflegur að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Börn sofi ekki úti í gos­móðunni suð­vestan­lands

Sýnileg gosmóða frá eldgosinu á Reykjanesi liggur yfir Suðvesturlandi. Mælt er gegn því að börn sofi úti og að viðkvæmir reynir á sig utandyra þegar móðan er sýnileg jafnvel þó að mengun mælist ekki yfir mörkum á loftgæðamælum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×