Heimir Már ræddi við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrsta borgarstjóra listans, í Kvöldfréttum.
„Það var auðvitað stóra arfleið Reykjavíkurlistans að breyta þessu. Sjálfstæðisflokkurinn var ekki lengur einráður í borgarkerfinu, og við breyttum þar með borgarkerfinu úr valdakerfi í þjónustustofnun,“ segir Ingibjörg Sólrún. Þegar R-listinn vann kosningarnar rauf hann 60 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins í borginni.
Hún telur sigur Reykjavíkurlistans hafa orðið til vegna þess að það hafi verið þörf og þrýstingur frá grasrótarhreyfingum. „Grasrótin í rauninni þrýsti á þetta, vildi breytingar á stjórnarháttum í borginni og vildi málefnalegar breytingar. Setja ný mál á dagskrá fyrir fólkið í borginni, fyrir fjölskyldurnar.“
Síðan þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn varla komist til valda í borginni. Gætir arfleiðar Reykjavíkurlistans ennþá í borginni?
„Já, hennar gætir í því að það tókst með varanlegum hætti að breyta borgarkerfinu og ég endurtek það. Þetta var valdakerfi og nú er þetta meira þjónustukerfi. Og okkur tókst að breyta áherslunum, þannig að málefni sem skipta fjölskyldurnar máli komust á dagskrá. Og okkur tókst að leiða þetta ólíka fólk saman til verka um mikilvæg málefni og það heldur áfram.“

Vegna sigursins vonuðust margir til þess að flokkar á félagslega vængnum í stjórnmálum sameinuðust einnig til þings. Samfylkingin, sem Ingibjörg Sólrún stýrði um hríð, var til að mynda stofnuð utan um þá hugmynd. Heldurðu að þetta muni einhvern tímann gerast í landsmálum?
„Ég vona það, en þá mun það ekki gerast með sama hætti og í borginni. Vegna þess að í borginni snýst þetta mjög mikið um afmörkuð málefni og fólk þarf að koma saman til verka um tiltekin afmörkuð málefni,“ segir Ingibjörg Sólrún.

Það séu stærri pólitískar línur og meira undir í landsmálunum. „En ég held að það sé komið að því að miðju- og vinstri flokkar sameinist um ákveðin málefni sem er mjög mikilvægt að hrinda í framkvæmd og þau geta hrint í framkvæmd. Og það er ekki þannig að það þurfi allir að vera sammála um alla hluti. Það þarf bara að vera um stóru línurnar og verkin sem mestu máli skipta.“
