Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í atvinnuveganefnd, segir að frumvarpið sé gríðarlega stórt, rúmlega 130 greinar, og málið hreinlega orðið of þungt í vexti til þess að hægt sé að klára það í vor.
Ósammála um sektarákvæði og gjaldheimtu
„Kannski í fyrsta lagi vildum við tímasetja leyfin í stað þess að hafa ótakmörkuð leyfi, og þá átti það líka að hafa áhrif á sektarákvæði og annað slíkt,“ segir Ásmundur. Hann segir að allir hafi verið sammála um þær breytingar, að leyfin yrðu ekki ótímabundin.

Ágreiningurinn hafi helst verið um breytingar á sektarákvæðum. „Við vorum alveg þannig séð búin að ná saman um skattheimtuna, en þetta laut að þessum atriðum helst, þessar gjaldheimtur og háu sektir. Upphæðirnar eru gríðarlega háar, fimmhundruð milljónir er hæsta sektin,“ segir Ásmundur.
Ríkisstjórnin geti ekki komið sér saman um stór mál
Logi Einarsson þingmaður Samfylkingarinnar segir að stjórnarandstaðan hafi haft ýmislegt um málið að segja, en það hafi ekki þurft til. Málið hafi farið út af borðinu án stjórnarandstöðunnar.
Hann segir málið einkennandi fyrir ástandið innan ríkisstjórnarinnar. „Þau eru saman í bíl, geta ómögulega komið sér saman um það hvert á að keyra, rífa í stýrið hvert hjá öðru og það er óhjákvæmilegt að það endar úti í skurði,“ segir Logi.
Hann segir fleiri stór mál innan ríkisstjórnarinnar sem ekki hefur náðst sátt um. „Hitt stóra málið er samgönguáætlunin, svo er það vindurinn og fleira, sem við eigum eftir að sjá hvað gerist með,“ segir Logi.
