Leiðin sem Hafmeyjurnar synda er 33 kílómetra löng. Synt er frá Shakespeare ströndinni í Dover á Englandi og stefnan tekin yfir til Cap Gris Nez í Frakklandi.
Ein syndir í einu, hver í klukkustund í senn. Búist er við að hver þeirra sinni tvisvar til þrisvar sinnum, en það veltur á straumi og veðri.
Á Facebook síðunni Hafmeyjur yfir Ermarsund eru gefnar stöðuuppfærslur í beinni útsendingu á klukkutíma fresti þegar ein kemur upp úr og ný fer ofan í. Hafmeyjurnar segjast hafa verið heppnar með veður þrátt fyrir að straumurinn virðist hafa verið talsverður þegar haldið var af stað í morgun.
Á vefsíðu Ermarsundsins er hægt að fylgjast með staðsetningu bátsins sem siglir með þeim hverju sinni. Báturinn þeirra heitir Sea Satin.