Innlent

Grafarvogsbúar þurfi ekki að óttast blokkir

Árni Sæberg skrifar
Einar Þorsteinsson er borgarstjóri.
Einar Þorsteinsson er borgarstjóri. Vísir/Arnar

Borgarstjóri segir áhyggjur íbúa Grafavogs af fyrirhugaðri uppbyggingu í hverfinu óþarfar. Enginn sé að fá margra hæða blokk í bakgarðinn hjá sér.

Mikið hefur verið skrifað og rætt um uppbyggingaráform Reykjavíkurborgar í Grafarvogi síðan þau voru kynnt á miðvikudag. Á kynningarfundi sagði Einar Þorsteinsson borgarstjóri að hægt ætti að vera að byggja um fimm hundruð íbúðir á ýmsum stöðum í Grafarvoginum. Til að mynda við Hallsveg rétt við Gufuneskirkjugarðinn.

Íbúar mótmæla

Hópur íbúa óttast að græn svæði hverfi fyrir þéttri byggð og hefur stofnað undirskriftalista til að mótmæla byggingu á fjölbýlishúsi á lóð við Smárarima og Sóleyjarima.

Einar mætti á Sprengisand til Kristjáns Kristjánssonar á Bylgjunni í morgun og fjallaði um húsnæðismálin í borginni í víðu samhengi. Hann reyndi að slá á áhyggjur Grafarvogsbúa.

„Ég vil segja við Grafarvogsbúa: Við erum að stilla fram hugmynd og svo hefst samtalið. Það er svo mikið tækifæri í þessu. Það hefur oft verið talað um að það hefur ekkert verið byggt af einbýlis-, par- og raðhúsum í Reykjavík í langan tíma, nú erum við að gera það. Við erum að bjóða upp á það að það sé hægt að byggja eins og Grafarvogurinn er, bara aðeins meira.“

Fólk fari upp á tærnar þegar það heyrir talað um þéttingu

Einar segir að hann hafi heyrt talað um þéttingu byggðar í þessu samhengi. „Þá fara allar einhvern veginn upp á tærnar og segja: nei, ég vil ekki fá blokk fyrir aftan húsið mitt. En það er ekki hugmyndin.“

Sannarlega séu lóðir í Grafarvogi þar sem hægt væri að byggja tveggja til þriggja hæða fjölbýlishús. „En við förum ekki að eyðileggja hverfisbraginn, það leikur sér enginn að því. Við þurfum að stækka Grafarvoginn og gera meira af því góða sem er þar.“


Tengdar fréttir

Borgin kynnir þéttingu byggðar í úthverfum

Borgarstjóri kynnti í dag áform um nýtingu lóða í helstu úthverfum borgarinnar til að auka lóðaframboð til smærri verkefna. Fullbúnum íbúðum í borginni hefur fækkað á undanförnum árum. Borgarstjóri segir að með þessum áherslum verði aukin fjölbreytni og kraftur settur í húnsæðisuppbygginguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×