Innlent

Fimm­tán mánaða skil­orð fyrir vörslu barnaníðsefnis

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra. 
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra.  Vísir/Vilhelm

Karlmaður um fimmtugt var á dögunum dæmdur í fimmtán mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa haft í vörslu sinni ljósmyndir og myndskeið sem sýndu börn á kynferðislegan eða klámfengin hátt, og fyrir að hafa dreift slíku myndefni til ótilgreindra aðila í gegn um spjallhópa á netinu.

Héraðsdómur Norðurlands eystra kvað upp dóminn þann 13. júní og greindi Mbl.is fyrst frá. Maðurinn var að auki dæmdur fyrir vopnalagabrot fyrir að hafa haft ólöglega hnífa, sverð og eftirlíkingu af revolver skammbyssu í vörslum sínum. 

Í dóminum segir að við húsleit á heimili mannsins hafi lögregla lagt hald á farsíma, spjaldtölvu og turntölvu þar sem finna mátti 416 ljósmyndir og 42 myndskeið, sem sýndu börn á kynferðislegan eða klámfengin hátt. Við rannsókn málsins lagði lögregla hald á vopnin. 

Í myndefninu var að finna talsvert magn efnis, sem sýnir grófa kynferðislega misnotkun gagnvart ungum stúlkubörnum. Við ákvörðun refsingar var horft til þess til þyngingar. 

Maðurinn játaði sök fyrir dómi. Til málsbóta var litið til þess að ákærði á ekki sakarferil að baki, hann hafi verið samvinnuþýður við rannsókn málsins hjá lögreglu og játað skýlaust fyrir dómi. Þá hafi hann sýnt vilja til að bæta sig með aðstoð fagaðila. 

Sem fyrr segir var maðurinn dæmdur í fimmtán mánaða skilorðsbundið fangelsi og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá voru tækin sem lögregla fann við húsleitina gerð upptæk auk vopnanna sem sem lögregla hafði lagt hald á við rannsókn málsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×