„Þetta er áfall fyrir okkur að missa svona stóran vinnustað úr rekstri. Vinnustað sem að veitir um 130 manns atvinnu. 130 heimilum,“ segir Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri Akraness.
Hann segir gjaldþrot 3X vera að miklu leyti vegna utanaðkomandi ástæðna og nefnir í því samhengi heimsfaraldur Covid-19 og innrásina í Úkraínu. Hann bætir við að mikilvægt sé að stjórnvöld geri meira fyrir bæjarfélagið og nefnir í því samhengi hvalveiðar og orkumál.
„Okkur finnst stundum ekki vera alveg hlustað á hagsmuni þessa byggðarlags að við þurfum líka sterka umgjörð til þess að atvinnulífið okkar blómstri,“ segir Haraldur.

Hundrað tuttugu og fjórir misstu vinnuna í dag, þar af eru um hundrað búsettir á Akranesi. Þar á meðal er Patrekur Orri Unnarson, stálsmiður sem hefur starfað fyrir fyrirtækið með hléum frá 2018.
„Ég var í fríi í dag þannig ég vaknaði bara í hádeginu, tíu missed calls og þá bara frétti ég það að ég væri búinn að missa vinnuna,“ segir Patrekur Orri.
Fram undan sé stutt sumarfrí en að því loknu muni hann hefja leit að nýju starfi.
„Við erum búnir að sjá fréttir síðustu daga þannig að það kom ekki þannig á óvart. Það er búið að tala mikið um þetta en þetta kom kannski flatt upp á mann í morgun,“ segir Patrekur Orri.
3X er ekki eina fyrirtækið á Akranesi sem hefur lent í erfiðleikum undanfarið en á dögunum var öllum starfsmönnum Skútunnar sem N1 á og rekur sagt upp.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir afleidd störf sem þjónusta fyrirtæki sem fara í gjaldþrot einnig líða fyrir það og áhrifin því mjög víðtæk. Hann kallar eftir því að stjórnvöld og bæjaryfirvöld stígi inn í af krafti.
„Að sjálfsögðu þurfa stjórnmálin að lúta að því að tryggja byggð í landinu. Ég hef átt samtöl bæði við forsætisráðherra og fjármálaráðherra dag þar sem ég hef lýst yfir verulegum áhyggjum yfir þeirri stöðu sem við Skagamenn stöndum frammi fyrir og ekki aðeins því sem við lendum í núna en einnig því sem við erum búin að lenda í,“ segir Vilhjálmur.
