Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, staðfestir í samtali við Vísi að veðrið verði svipað og í gær en jafnvel örlítið betra. Hitastig fór í rúmlega 20 stig við Skálholt í gær og gæti hitastig náð þeim hæðum á Suðurlandi fjarri frá hafgolunni við ströndina.
Mesta blíðviðrið á Suðurlandi
Óli nefnir að búast megi við góðu veðri á stöðum eins og Selfossi og Hveragerði en að veðrið muni vera enn betra austar á Suðurlandinu líkt og í Þjórsárdal og við Hellu. Hann segir norðanáttina gera það að völdum að Suðurlandið njóti mesta blíðviðrisins í dag.
„Uppsveitir Suðurlands hafa yfirleitt vinninginn á svona dögum þar sem það er norðanátt og smá vestanátt. Það munar um að vindurinn frá sjónum er ekki að ná þarna inn af krafti.“
Aðeins svalara á höfuðborgarsvæðinu
Veðrið á Vesturlandi mun einnig vera hlýtt og sólríkt en að mati Óla gæti hitastig náð allt að nítján gráðum í Borgarfirði. Með kvöldinu mun þó skýjaslæða breiðast yfir Snæfellsnes og vestanverða Vestfirði.
Hann segir að á höfuðborgarsvæðinu muni hitastigið líklegast vera tveimur til þremur gráðum svalara en það var í gær vegna sjávarlofts sem umlykur svæðið. Hann tekur fram að Vatnsendasvæðið muni líklegast fá besta veðrið vegna fjarlægðar frá sjó.
Á þriðjudaginn verður best að vera á Austurlandi
Á Norðurlandi og Austurlandi heldur það áfram að vera þungbúið og í svalara lagi í dag og á morgun en Óli tekur fram að veðrið taki við sér þar á þriðjudaginn og að hitastig ætti að ná 20 gráðum á Austurlandi.
„Frá og með þriðjudegi verður besta veðrið á Austurlandi.“