Í umfjöllun AP fréttaveitunnar er rætt við sjerpa sem leitt hefur teymi sem vinnur að hreinsun í fleiri ár. Nepölsk yfirvöld hafa styrkt verkefnið, sem krefst mannafla tuga sjerpa og hermanna. Í ár fjarlægði teymið um 11 tonn af rusli, auk fjögurra líka og beinagrindar.
Sjerpinn Ang Babu, sem leiðir hópinn, telur að um 40 til 50 tonn séu á efstu tjaldbúðunum Suður-Col, sem garpar dvelja í áður en þeir reyna við síðasta spöl tindsins.

„Ruslið er aðallega gömul tjöld, matarumbúðir, súrefniskúrtar og reypi,“ segir Babu og bætir við að töluvert af ruslinu sé erfitt viðureignar þar sem það sé freðið í fjallinu.
Á síðustu árum hafa yfirvöld sett reglur sem kveða á um að göngugarpar þurfi að taka ruslið með sér niður af fjallinu. Að öðrum kosti fá þeir tryggingargjald ekki endurgreitt. Í umfjöllun AP segir að fólk sé almennt meðvitað um reglurnar í dag, sem hafi dregið þar með úr sóðaskap. Það hafi hins vegar ekki verið raunin áður fyrr.

Sjerparnir í teyminu hafa einblínt á erfiðari svæði, hærra í fjallinu, á meðan hermenn hafa sinnt ruslatínslu í fyrstu tjaldbúðum. Ang Babu segir veðrið alla jafna gera þeim afar erfitt fyrir í hæstu tjaldbúðunum.
„Við verðum að bíða eftir góðu veðri þar sem sólin bræðir ísinn. En að bíða lengi í þessum aðstæðum er bara ekki hægt,“ segir hann. „Það er mjög erfitt að dvelja lengi í jafn súrefnissnauðu umhverfi.“
Til að mynda hafi það tekið teymið tvo daga að grafa upp lík nálægt Suður-Col. Teymið hafi þurft að færa sig í lægri búðir vegna veðurs til að bíða átekta. Einfalt svar sé við spurningu um það hvers vegna göngugarpar skilji ruslið eftir.
„Í þessari hæð er eru aðstæður erfiðar og súrefni lítið. Fjallgöngumenn einbeita sér því meira að því að halda sér á lífi,“ segir Ang Babu.