Erlent

Vilja ekki feita inn­flytj­endur

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Marco Rubio eru hér fyrir miðju og hægra megin á myndinni.
Donald Trump og Marco Rubio eru hér fyrir miðju og hægra megin á myndinni. AP/Evan Vucci

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur skipað starfsmönnum sendiráða ríkisins að taka tillit til holdafars fólks sem sækir um vegabréfsáritun til að búa í Bandaríkjunum. Einnig á að taka tillit til þess hvort fólk sé með sykursýki eða aðra heilsukvilla og nota þá til að hafna umsóknum fólks.

Einnig á að taka tillit til aldurs umsækjenda en með þessu vilja yfirvöld vestanhafs koma í veg fyrir að þangað flytji innflytjendur sem þurfi á aðstoð velferðarkerfisins að halda.

Í minnisblaði sem sent var á sendiráð Bandaríkjanna segir, samkvæmt frétt Politico, að sjálfbærni hafi lengi verið undirstöðuatriði í innflytjendastefnu Bandaríkjanna.

Ríkisstjórn Donalds Trump hefur lagt mikla áherslu á að draga úr fjölda innflytjenda í Bandaríkjunum og þá bæði þeirra sem dvelja þar með ólöglegum hætti og fólks sem reynir að flytja þangað með löglegum hætti.

Í áðurnefndu minnisblaði segir að taka verði til skoðunar heilsu umsækjenda, holdafar og hvort þeir séu með einhverja langvarandi sjúkdóma eða glími við geðræn vandamál. Það geti kostað ríkið hundruð þúsunda dala.

Offita, asmi, kæfisvefn og hár blóðþrýstingur er einnig eitthvað sem taka á til skoðunar þegar fólk sækir um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna.

Þá á einnig að taka tillit til þess hvort umsækjendur hafi burði til að greiða sjálfir fyrir heilbrigðisþjónustu, þurfi þeir á henni að halda.

Á í raun við alla umsækjendur

Lögfræðingur sem sérhæfir sig í málefnum innflytjenda sagði í samtali við KFF Health News að viðmiðin nýju ættu í raun við alla sem sækja um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna, hvort sem markmiðið er að búa þar eða fara í heimsókn.

Líklega yrði þó ekki tekið tillit til heilsu fólks sem vill fara til Bandaríkjanna sem ferðamenn í skamman tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×