Íslenski boltinn

Sjáðu þrennu Söndru, fernu Huldu og táningana sjá um þetta fyrir Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra María Jessen þakkar Huldu Ósk Jónsdóttur fyrir stoðsendinguna en það gerðist þrisvar í gær.
Sandra María Jessen þakkar Huldu Ósk Jónsdóttur fyrir stoðsendinguna en það gerðist þrisvar í gær. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Fótboltastelpurnar í Bestu deildinni fundu skotskóna á ný eftir afar fá mörk í umferðinni á undan.

Tólfta umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta fór fram um helgina og nú má sjá öll mörkin úr henni hér inn á Vísi. Þór/KA, Valur, Breiðablik og Keflavík fögnuðu sigri í sínum leikjum í gær.

Klippa: Mörkin úr leik Þróttar og Þórs/KA

Sandra María Jessen skoraði þrennu í 4-2 sigri Þór/KA á Þrótti í Laugardalnum. Öll mörkin skoraði hún eftir stoðsendingar frá Huldu Ósk Jónsdóttur.

Hulda gerði betur en hún átti alls fjórar stoðsendingar í leiknum eftir að hafa lagt einnig upp mark Karenar Maríu Sigurgeirsdóttur.

Leah Maryann Pais og Kristrún Rut Antonsdóttir skoruðu mörk Þróttar sem vann seinni hálfleikinn en 0-3 staða í hálfleik var bara of mikið til að vinna upp.

Klippa: Mörkin úr leik FH og Breiðabliks

Katrín Ásbjörnsdóttir var með tvö mörk þegar Breiðablik vann 4-0 útisigur á FH en Birta Georgsdóttir og Karitas Tómasdóttir skoruðu tvö fyrstu mörk Blika í leiknum.

Ungu stelpurnar Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir og Ísabella Sara Tryggvadóttir skoruðu mörk Valsliðsins í 2-0 útisigri á Víkingi. Ragnheiður Þórunn er fædd árið 2007 en Ísabella Sara árið 2006.

Eva Lind Daníelsdóttir skoraði eina markið þegar Keflavík vann 1-0 heimasigur á Fylki. Þetta var hennar fyrsta mark í efstu deild.

Hér fyrir ofan og neðan má sjá mörkin úr leikjunum en ekkert var skorað í leik Tindastóls og Stjörnunnar á laugardaginn.

Klippa: Mörkin úr leik Víkings og Vals
Klippa: Markið úr leik Keflavíkur og Fylkis



Fleiri fréttir

Sjá meira


×