Lið CrossFit Complex Wodex náði þriðja sæti í undanúrslitamóti vesturhluta Norður Ameríku en sá árangur skilaði liðinu sæti á heimsleikunum. Þetta var besti árangur CrossFit liðs frá Mexíkó.
The Barbell Spin vefurinn hefur verið að vakta lyfjahneyksli undanúrslitamótanna en þrír af fjórum efstu í karlaflokki Asíumótsins féllu á lyfjaprófi. Þar kemur fram að Cornejo hafi fallið á lyfjaprófi sem var tekið 25. maí síðastliðinn.
Sýni Cörlu innihélt anabólíska sterann metenolone sem er einnig á bannlista hjá Alþjóðlega lyfjaeftirlitinu, WADA. Fyrir þá sem vilja fá upplýsingar um fullt heiti þá var það á ensku: 16a-hydroxy-1-methyl-5a-androst-1-en-3,17-dione and 3a-hydroxy-1-methylene-5a-androstan-17-one, metabolites of metenolone.
Efnið, sem er líka notað í læknisfræðilegum tilgangi, hjálpar viðkomandi að brenna fitu hraðar um leið og að auka vöðvamassa sinn. Það þekkist líka undir nafninu Primobolan.
Cornejo hefur verið í Complex Wodex liðinu undanfarin tvö tímabil. Á síðasta ári endaði liðið í fjórtánda sæti í undanúrslitamótinu en að þessu sinni hækkaði liðið sig um ellefu sæti.
Sjö efstu liðin unnu sér sæti á heimsleikunum og CrossFit Complex Wodex fór því sannfærandi inn á leikana.
Þessar fréttir af fyrirliða þess þýða hins vegar að liðið missir nú farseðil sinn. Aðrir í liðinu voru þau Sasha Nievas, Esteban Ospina og Ricardo García. Samuel Zaleme og Ana Sofía Armenta Cano voru varamenn.
Lið Rhino CrossFit Dawgs fengið boð um að keppa í staðinn fyrir Complex Wodex á heimsleikunum. Complex Wodex liðið hefur samt áfrýjað þessum dómi en dugar væntanlega skammt.