Veður

Siggi stormur biðst af­sökunar á sumarspánni sem ekki rættist

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Siggi segir það sér bæði ljúft og skylt að afsaka spána frá því í vor.
Siggi segir það sér bæði ljúft og skylt að afsaka spána frá því í vor. vísir/vilhelm

„Þegar ég sá í hvað stefndi, þá yfirgaf ég landið,“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson, betur þekktur sem Siggi stormur, í samtali við fréttastofu. Hann var brattur í vor og spáði blíðvirði um allt land í sumar. Sú spá hefur ekki ræst.

Til marks um það er gul viðvörum sem Veðurstofan gaf út í gær, við skriðuhættu á vestanverðu landinu vegna mjög mikillar úrkomu. 

„Þetta er mjög víðsjárvert veður, það er úrkoman sem fylgir þeirri lægð sem er að nuddast vestan við landið. Þetta er uppsöfnuð úrkoma sem er jafnvel 300 millimetrar næstu þrjá daga, mest á Snæfellsnesi og Vestfjörðum. Til samanburðar er ársúrkoma í Reykjavík sjö til áttahundruð millimetrar á ári,“ segir Sgiggi. 

Það dragi hins vegar úr úrkomunni eftir helgi. 

„En það er mjög óvanalegt að vera með viðvaranir á borð við þessar í miðjum júlí. Þetta er mjög alvarlegt veður vegna þess að gróðurinn er laufgaður og tekur á sig meiri vind. Þessi gríðarlega úrkoma, sem fellur á þunna gróðurþekju getur leitt til þess að allt fari af stað.“

Hann mælir því gegn því að fólk ferðist um vestanvert landið um helgina. 

„Menn verða að líta til fjalla gagnvart því ef eitthvað fer af stað. Þetta er fullkomin ástæða til þess að kynna sér málin mjög vel. Mér líst mjög illa á þetta og man ekki eftir að sjá neitt slíkt á þessum árstíma.“

Ljúft og skylt að afsaka spána

Í apríl lofaði Siggi hlýju og sólríku sumri í fréttum Stöðvar 2. Hann gerði ráð fyrir hlýju sumri í júní, júlí og ágúst. 

„Og líka að það verði úrkomulítið í sumar sem þýðir að það verður sennilega sólríkt sumar víða um land,“ sagði Siggi brattur í kvöldfréttum 21. apríl síðastliðinn.

Það verður því ekki hjá því komist að spyrja hvað hafi hreinlega farið úrskeiðis. 

„Mér er bæði ljúft og skylt að afsaka þá spá sem lá í kortunum í apríl. Það er engu að síður svo að menn eru að reyna að reikna líkur á tilteknu veðri. Veðurhorfur fyrir sumarið voru býsna góðar en svo lendum við trekk í trekk í veðri sem ekki var gert ráð fyrir,“ segir Siggi og nefnir það þegar norður-heimskautssloft mætti með vetur til Íslands í júnímánuði. Menn misstu fé og ófært var milli landshluta. 

Búið að kollvarpa hugmyndum vorsins

„Þá falla þessar spár auðvitað um sjálfar sig. Það er engu að síður svo að ég sé ekki ástæðu til þess að fólk fái ekki að vita hvað er í kortunum,“ segir Siggi. Hann vill því fremur leyfa fólki að vita af því spár gera ráð fyrir. 

„En auðvitað verður maður aðeins beygður þegar spáin fer svona illa eins og hún gerði snemma. Og biðst ég afsökunar á því. En mér finnst óeðlilegt að þegja yfir einhverju sem búið er að eyða miklum peningum í að þróa, sem er að finna veðurlag yfir ákveðið tímabil. Ég er búinn að gera þetta í átján ár og í meirihluta tilfella hefur þetta staðist þokkalega, en búið er að kollvarpa þessum hugmyndum sem voru uppi snemma vors.“

Siggi minnir á að veðrið sé ekki afleitt á öllu landinu og nefnir Austurlandið. Þangað flykkist fólk í stórum stíl þessa helgina. Svo stórum raunar að eigendur tjaldsvæða veigra sér við því að gefa það upp hvar laus tjaldstæði séu, af ótta við að mannmergð myndist.

„Á miðvikudag í næstu viku á nú að draga úr þeim hita og þetta á að jafnast meira, en það er óttalegt hökt á þessu öllu. Spárnar eru ekki allar sammála um það hvernig þetta verður en strax á miðvikudag, fimmtudag eigum við að vera komin með þokkalegt veður,“ segir Siggi sem reynir að enda samtalið á góðum nótum.

„Þegar maður lendir í því að spár séu tóm vitleysa verður maður feimnari við að gefa þær út aftur. En það eru komnar spár fyrir haustið og ég fer mjög varlega í að túlka þær allar enda hef ég lagt mesta áherslu á sumrin enda er það sá tími sem gefur fólki frí frá skítaveðri. En þegar ég sá í hvað stefndi sjálfur, þá yfirgaf ég nú landið. Ég nennti ekki að standa í þessum kulda, var kominn með vettlinga að mála sumarbústaðinn. Þá er gamanið farið að kárna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×