„Þessi einstaki atburður í dag er náttúrlega svo stórkostlegur að sama hvar áin hefði verið hefði hún farið í bakka sína með tilheyrandi tjóni,“ segir Jóhannes Gissurarson, oddviti Skaftárhrepps og bóndi á Herjólfsstöðum.
Hann segir allt að 25 ár síðan íbúar sáu fyrir að eitthvað þessu líkt gæti gerst, en níu ár eru síðan Jóhannes lýsti yfir áhyggjum af miklum jökulbreytingum sem hafa valdið því að áin Skálm hefur margfaldast eftir að kvíslar úr öðrum ám tóku að renna í hana.
Hann segir stærðargráðu hlaupsins slíka að það hefði valdið tjóni hvar sem það hefði orðið. „Þetta er bara atburður sem enginn fær neitt ráðið við, hvar svo sem hann hefði komið fram.“
Netsambandslaust er á svæðinu í kringum ána og þá er hluti þjóðvegar 1 farinn í sundur. Jóhannes bendir á að vegurinn sé eina vegsambandið á austanverðu Suðausturlandi.
„Við höfum engar aðrar samhöngur hér en þjóðveg 1 og það hefur sagan kennt okkur að þessar vegsamgöngur geta rofnað af svona tilfellum,“ segir Jóhannes.
„Sem betur fer hangir brúin enn uppi þannig að það er fljótlegt að hressa upp á veginn svo hann geti orðið fær bílum,“ bætir hann við.