Berghildur Erla var á Selfossi, þar sem aðgerðum er stýrt, í Kvöldfréttum og ræddi við Grím Hergeirsson lögreglustjóra á Suðurlandi.
„Staðan er sú núna að það er ennþá hlaup í gangi í Skálm. Suðurlandsvegur er með öllu lokaður frá Höfðabrekku og austur að Meðallandsvegi.“
Hann segir að tekin hafi verið ákvörðun um að rýma svæði við Sólheimajökul að höfðu samráði við Veðurstofuna. Reikna megi með að lokunin standi yfir inn í nóttina hið minnsta og til morguns.
Það hefur flætt yfir veginn við Skálm, hvernig standa málin með tilliti til brúarinnar?
„Það flæddi yfir brúna og þjóðveginn á um kílómeters kafla fyrir austan brúna. Það liggur fyrir að það eru skemmdir á veginum og það verður ekkert hægt að skoða það fyrr en sjatnar í þessu og þá kemur í ljós hvaða aðgerða þarf að grípa til, til að opna.“
Grímur segir mikið af ferðamönnum á svæðinu en ekki sé vitað til þess að nokkur hafi verið í hættu. „Þetta hefur gengið mjög vel og við höfum náð utan um þetta mjög vel.“
Hversu stórt er þetta hlaup með tilliti til annarra?
„Það á auðvitað eftir að koma í ljós eftir að búið er að mæla allt saman en það liggur fyrir að þetta er í stærri kantinum og kannski á pari við það sem við sáum í Múlakvísl 2011.“
Þyrla Landhelgisgæslunnar var á flugi yfir jöklinum á sjöunda tímanum í þeim tilgangi að kanna aðstæður. Grímur bendir ferðamönnum sem ætla sér að ferðast um Suðurlandið á að fylgjast með stöðu mála á vef Vegagerðarinnar og vef Almannavarna.