Erlent

Stjúp­sonur norska prinsins hand­tekinn um helgina

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Marius Borg Høiby er í klandri.
Marius Borg Høiby er í klandri. EPA/VEGARD WIVESTAD GROTT

Marius Borg Høiby stjúpsonur Hákonar krónprins af Noregi var handtekinn um helgina vegna líkamsárásar og skemmdarverka sem áttu sér stað síðastliðinn laugardag. Samkvæmt upplýsingum norskra fjölmiðla þekkir Høiby þann sem varð fyrir árásinni.

Í umfjöllun norska ríkisútvarpsins um málið kemur fram að lögreglan hafi staðfest að Høiby verði kærður vegna málsins. Fram kemur að sá sem varð fyrir árásinni hafi leitað sér læknisaðstoðar en að lögreglu sé ekki kunnugt um hvort áverkarnir séu af alvarlegum toga.

Fram kemur að norska konungsfjölskyldan verjist allra frétta af málinu. Þá hafi lögmaður Høiby, Øyvind Bratlien, staðfest að það sé skjólstæðingur hans sem viðriðinn sé málið. 

Frestaði ferð á Ólympíuleikana

Høiby, sem er 27 ára gamall, er sonur prinsessunnar Mette-Marit úr fyrra sambandi. Mette-Marit giftist Hákoni prinsi árið 2001. Hákon heimsótti Ísland svo athygli vakti fyrir tveimur árum síðan. Fram kemur í frétt NRK að Mette-Marit hafi frestað för sinni til Parísar þar sem hún átti að vera viðstödd Ólympíuleikana og er það rakið til máls Høiby.

Frekari upplýsingar um málið koma ekki fram í frétt NRK. Þar segir að von sé á frekari upplýsingum frá lögreglu. Fram kemur að allajafna sé hinn brotlegi dæmdur í 30 til 120 daga fangelsi fyrir líkamsárás, þó dómurinn geti orðið allt að sex ár sé um alvarlegt brot að ræða. Þá sé allajafna um sektargreiðslur að ræða vegna eignaspjalla eða fangelsi í allt að eitt ár, nema um sé að ræða alvarlegt brot en þá geti dómurinn varðað allt að sex ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×